Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 55
andvari
GYLFI Þ. GÍSLASON
53
Alþýðubandalags, en 14 þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna greiddu
atkvæði gegn henni. Að svo búnu fóru viðræður fram og lauk þeim á
árinu 1969. Alþingi fjallaði síðan um samninginn og var hann sam-
þykktur af 34 þingmönnum stjórnarflokkanna gegn atkvæðum sjö
þingmanna Alþýðubandalagsins, en þingmenn Framsóknarflokksins
sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Tók aðild landsins að Fríverzlunarsam-
tökum Evrópu (EFTA) gildi hinn 1. marz 1970. Efni samningsins við
EFTA verður ekki sérstaklega rakið hér, en óhætt mun að fullyrða að
hann hafi á margan hátt verið til mikilla bóta fyrir atvinnulíf og lífs-
kjör landsmanna. Jón Baldvin Hannibalsson var fulltrúi fyrir þingflokk
Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna í EFTA-nefndinni. Hann lýsir
þeim sinnaskiptum, sem hann tók í nefndarstarfinu:
Smám saman var að renna upp fyrir mér að maðurinn sem sat við borðsendann
á þessum nefndarfundum, Gylfi Þ. Gíslason, viðskiptaráðherra og formaður
Alþýðuflokksins, var tímamótamaður í íslenzkum stjórnmálum. Hann var sá af
ráðherrum viðreisnarstjórnarinnar sem bar mest skynbragð á stjórn efnahags-
mála og fylgdist best með þróun efnahagsmála á alþjóðavettvangi. 56
Á árinu 1970 átti Gylfi einnig umfangsmiklar viðræður við forsvars-
menn Efnahagsbandalagsins um viðskiptasamning milli þess og
Islands, þótt ekki tækist samkomulag um hann fyrr en 22. júlí 1972,
eftir að viðreisnarstjórnin hafði látið af völdum.
Svo sem áður hefur komið fram urðu sérstakar aðstæður til þess,
að „efnahagssamvinnan (OEEC, síðar OECD), alþjóðafjármálastofn-
anir og erlend tækniaðstoð“57 komu í hlut Gylfa í vinstristjórninni árið
1956. Var það staðfest í auglýsingu forsætisráðuneytis í júlí það ár.
Er viðreisnarstjórnin tók við árið 1959 var bæði valdsvið hans aukið
og það skilgreint nánar. Sagði þá í auglýsingu ráðuneytisins að hann
faeri með „Bankamál ...58 (V)iðskiptamál, þar undir innflutnings-
verzlun, gjaldeyrismál og verðlagsmál. Efnahagssamvinnan (OEEC),
alþjóðafjármálastofnanir og erlend tækniaðstoð.“59 Samskiptin við bæði
Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn voru því á starfssviði
hans. Var hann fulltrúi Islands í stjórn bankans 1965-1971 og gjald-
eyrissjóðsins 1956-1965. Allt þetta málasvið var svo umfangsmikið,
að vel hefði mátt kalla hann utanríkisviðskiptamálaráðherra Islands á
þessum tíma, hefði það starfsheiti verið til. Embættið var áhrifaríkt og
jafnframt var þessi vettvangur afar mikilvægur fyrir Island, þá þegar
og síðar.