Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 160
158
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
um Jeppa á Fjalli, benti hann sérstaklega á hversu marga strengi Lárus kynni
að leika á innan gamanleikjaformsins.83 Þessi tengsl skýra einnig hversu vel
honum tókst með klassísku gamanleikina í Iðnó: Kaupmanninn í Feneyjum,
Eftirlitsmanninn, Volpone. Sem yður þóknast virðist ekki hafa tekist eins vel í
Þjóðleikhúsinu, en þar var Lárus einnig að glíma við stærra og flóknara leik-
svið en hann hafði unnið á fyrr, ef undan eru skilin leiksviðin í Noregi.
Lárus var á hinn bóginn ekki dramatískur eða tragískur leikari, líkt og
Þorsteinn Ö. Stephensen eða jafnvel Valur Gíslason. Þess vegna tókst honum
ekki betur en raun ber vitni með Hamlet Danaprins árið 1949. Fyrir þann leik
fékk hann yfirleitt heldur slaka dóma, þó að sýning Tiemroths þætti takast
vel.84 Þó að Þorvaldur vitni í suma þeirra dómara, sem töldu Lárus hvorki
hafa útlit né jafnvel raddtækni í hlutverkið, reynir hann að gera lítið úr þeim,
og lætur beinlínis að því liggja að þeir hafi látið stjórnast af fordómum, gott
ef ekki fáfræði, um það hvernig ætti að leika hlutverkið. Til mótvægis við þá
birtir hann langan kafla úr dómi Ásgeirs Hjartarsonar, sem var þeirra langjá-
kvæðastur. Hér sem víðar finnum við glöggt fyrir því að Þorvaldur „heldur
með“ Lárusi, veigrar sér við að skoða hann úr nógu gagnrýninni fjarlægð.
í sjálfsævisögu sinni, Sá svarti senuþjófur, kemur Haraldur Björnsson
stundum fram sem hálfgildings píslarvottur atvinnumennskunnar. Hann er
hinn misskildi fagmaður sem „dillettantarnir“ í Iðnó vilja halda sem lengst
frá leikhúsinu, væntanlega til þess að almenningur átti sig ekki á því hvernig
alvörulistamenn vinni. Deilan snýst um listrænar kröfur, listræn viðmið, en
hún snýst einnig um völd, hvað eigi að ráða - og hver eigi að ráða. Deilur
innan leikhússins gera það æði oft. Ég efa ekki, að það er rétt hjá Þorvaldi að
harmsaga Lárusar hafi að nokkru leyti, jafnvel verulegu leyti, legið í því að
hann missti völd við að gerast starfsmaður Þjóðleikhússins. Hann varð undir
í valdabaráttu leikhússins og gafst upp.
Freistandi getur verið að sjá Lárus Pálsson sem saklaust fórnarlamb í þeirri
sögu. Ég held þó ekki að við þurfum að hvítþvo „andstæðinga“ hans innan
leikhússins, þó að við höfum augun opin fyrir veilum hans sjálfs. Það má vel
gagnrýna þá og dæma, án þess að varpa á þá allri sökinni af því hvers vegna
Lárusi vegnaði ekki betur en raun ber vitni. Þeir ógeðfelldu félagar, Kládíus
Danakóngur og Pólóníus ráðgjafi hans, verða ekki að hetjum, þó að Hamlet
sjálfur sé sýndur sem breysk og brotakennd manneskja sem ferst í átökum
sinna innri mótsagna. Það er einn þeirra lærdóma sem við getum dregið af
leiknum mikla um Danann Hamlet. Gæti hugsast að þá megi að einhverju
leyti heimfæra upp á söguna af Lárusi Pálssyni, fyrsta fullgilda atvinnumanni
íslenskrar leiklistarsögu?