Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 53
andvari
GYLFI Þ. GÍSLASON
51
Gylfi komst á þá skoðun, líkt og flestallir aðrir forystumenn jafnaðar-
manna í Evrópu, að aflvél markaðarins væri öflugri en eimvél þjóðnýt-
ingarinnar, þegar á allt væri litið. Þess vegna ætti velferðarsamfélagið
að taka hana í sína þjónustu og beita henni fyrir vagn sinn. Velferðin
ætti að byggjast á traustum markaðsbúskap, en ekki væri sama hvernig
honum væri stjórnað. Atvinnulífið ætti að starfa og stefna að hámarks-
afköstum, en ekki að stjórna þjóðfélaginu. Hins vegar ættu kjörnir
fulltrúar að móta stefnuna og ráða ferðinni. I því samhengi tók hann
gjarnan líkingu af skipi á siglingu. Taldi hann það grundvallaratriði að
vélstjórarnir í markaðsbúskapnum einbeittu sér að störfum sínum í vél-
arrúminu, en skipstjóri og stýrimenn væru í brúnni, mörkuðu stefnuna
og réðu ferðinni. Kæmust markaðsforstjórarnir til valda myndu hags-
munir þeirra ráða mestu, án tillits til farþeganna, og það myndi ekki
leiða til velfarnaðar fyrir þjóðfélagið.
A síðari hluta sjöunda áratugarins, aðallega 1967 og 1968, höfðu
komið upp gífurlegir erfiðleikar í atvinnu- og efnahagsmálum lands-
manna, sem höfðu í för með sér mikið atvinnuleysi og versnandi
lífskjör. Leiddu þeir meðal annars til þess, að fjöldi manns leitaði til
annarra landa í atvinnuleit. Bjarni Benediktsson var þá orðinn for-
sætisráðherra viðreisnarstjórnarinnar, er sá að ekki mátti við svo búið
standa. Hefur áður komið fram, að hún beitti sér fyrir því árið 1969
að komið var á laggirnar skipulegu samstarfi ríkisvalds, verkalýðs-
samtaka, sveitarfélaga og samtaka atvinnurekenda um aðgerðir gegn
atvinnuleysi og til atvinnuaukningar í landinu. Skyldi það standa í tvö
ár. Atvinnumálanefnd ríkisins, sem var undir formennsku forsætisráð-
herrans, réð yfir talsverðum fjármunum og hafði ákvörðunarvald, en
undirnefndir störfuðu í kjördæmunum. Auk hans sátu í nefndinni þeir
Jóhann Hafstein, iðnaðarráðherra, og Gylfi Þ. Gíslason, viðskiptaráð-
herra. Framkvæmdastjóri nefndarinnar var Jónas H. Haralz.
Talsverður árangur varð af þessu starfi og átti það sinn þátt í að
smám saman dró úr atvinnuleysi í landinu. Þessi umfangsmikla íhlutun
ríkisvaldsins í atvinnumálum fyrir landið allt var harla sérstæð og átti
sér fáar fyrirmyndir eða hliðstæður, nema ef vera skyldi í nýsköpun
atvinnulífsins 1944-1947. Hún hefur heldur ekki orðið öðrum ríkis-
stjórnum til eftirbreytni síðar. Fyrir Gylfa hafa þessi afskipti verið eðli-
*eg og sjálfsögð, enda var hann minnugur kenninga Beveridge lávarðar,
Gunnars Myrdal og John Maynard Keynes um beint og réttmætt inngrip
ríkisvaldsins gegn atvinnuleysi. Hið sama virðist hafa átt við um Bjarna