Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 155
ANDVARI
HAMLET ÍSLENSKRAR LEIKLISTAR?
153
En var hann aldrei tvístígandi gagnvart málstaðnum sjálfum? Lárus var
þegar í skóla orðinn mjög róttækur í skoðunum.74 En var hann það alla tíð?
Hvernig brást hann við tíðindunum í Ungverjalandi, þegar Sovétvaldið sýndi
sitt rétta andlit með innrásinni árið 1956? Var hann einn af þeim sem „biluðu í
Ungó“, eins og Þórbergur Þórðarson mun hafa orðað það? Hvað fannst honum
um sinnaskipti Halldórs Laxness sem fram koma í Skáldatíma? Þorvaldur
ræðir þessi mál hvergi nokkurs staðar, ef til vill sökum heimildaskorts. Það
er í sjálfu sér ekki ótrúlegt að Lárus hafi einfaldlega ákveðið að leiða þessi
mál sem mest hjá sér. Samt hlýtur hann að hafa hugsað sitt - eins þótt hann
kysi að láta kyrrt liggja, að fara með löndum.
Hamlet leikhússins?
í ritdómi mínum um Lárusarsögu sagði ég að mér fyndist síðasti hluti hennar,
um árin í Þjóðleikhúsinu, sá rýrasti. Þó að ég standi við það, hlýt ég að játa,
að mér finnst við endurlestur bókarinnar nú sá hluti mjög vel skrifaður, á köfl-
um jafnvel áhrifamikill. Sá þráður, sem Þorvaldur rekur sig þar einkum eftir,
snýst mjög um hnignun Lárusar, vanlíðan og sjúkleika. Þá sögu hefði vel mátt
rekja ítarlegar, meðal annars með fleiri vísunum í Tiemroth-bréfin. En hætt
er við að sú lesning hefði orðið æði átakanleg og óþægilega nærgöngul fyrir
smekk margra. Þó að þeir Guðlaugur Rósinkranz og Lárus yrðu aldrei neinir
vinir, er sjálfsagt rétt sem Þorvaldur segir - og mig grunar að hann hafi Maríu
Jóhönnu Lárusdóttur að aðalheimildarmanni - að samband þeirra hafi lagast
með árunum, eftir því sem þeir kunnu betur að meta kosti hvors annars og
urðu viljugri að horfa fram hjá göllunum.75 Eftir að Lárus var orðinn alvarlega
sjúkur, virðist Guðlaugur hafa tekið á málum hans af mannúð og skilningi, en
Lárus var kominn á eftirlaun frá leikhúsinu nokkru fyrir andlát sitt.
Það sem helst skortir í þennan hluta ritsins er einhvers konar tilraun til að
gera upp feril Lárusar, takast á við þá spurningu hvers konar listamaður hann
hafi verið og hvers vegna ótvíræðir hæfileikar hans nýttust ekki betur en
þeir gerðu. Það var ugglaust að mörgu leyti aðstæðunum að kenna, en tæpast
öllu leyti. Lárus hafði sitthvað nýtt fram að færa þegar hann kemur ungur
maður til landsins. En hvaða hugmyndir hafði hann um hlutverk leikhússins
almennt? Hann var mjög gagnrýninn á leikhússtjórn Guðlaugs Rósinkranz, en
er einhver ástæða til að halda að hann hefði sjálfur orðið betri leikhússtjóri?
Þorvaldur telur bréfaskipti þeirra Tiemroths sýna hversu vel hann fylgdist
með nýjungum í leiklist nágrannalandanna. Um samskipti þeirra félaga eftir
stríð skrifar hann: