Hugur - 01.01.2006, Síða 12
IO
Þorsteinn Gylfason - minning
Greinarnar í heild sýna gott vald Þorsteins á mörgum sviðum heimspekinn-
ar og frábært vald á stíl og tungu. I tveimur síðastnefndu greinunum setur
Þorsteinn fram frumlegar og athyglisverðar hugmyndir um réttlæti og sann-
leika - hvort tveggja efni sem voru honum hugleikin og hann heldur fram
hér að séu náskyld. A tíunda áratug síðustu aldar birtast eftir hann þrjár bæk-
ur: Tilraun um heiminn (Reykjavík 1992), Að hugsa á íslenzku (Reykjavík
1996) og Réttlæti og ranglæti (Reykjavík 1998). Þessar bækur eru ritgerða-
söfn, sumpart með áður óbirtum greinum, en þar er líka að finna áður birt-
argreinar, m.a. greinarnar sem nefndar eru hér að ofan.
I mörgum af síðari ritgerðum sínum er Þorsteinn að fást við efni sem hann
hafði haft áhuga á alla tíð en gagntóku hug hans síðustu fimmtán æviárin eða
svo: líkingar og sköpunargáfu. Þetta tvennt sá hann sem tvo kvisti af sama
meiði: Líkingasmíð var fyrir honum ekki aðeins eða fyrst og fremst einkenni
á skáldskap. Líkingar voru talandi dæmi um sköpun almennt og að verki á
mörgum sviðum, jafnt í daglegri málnotkun sem í vísindum. Þorsteinn gerði
margar atlögur að þessu viðfangsefni. Þær getur flestar að líta í ritgerðasafn-
inu Að hugsa á islenzku. En hann hélt áfram að fást við þetta fram á síðustu
stund. Mig grunar að áður óbirt efni um þetta kunni enn að líta dagsins ljós.
Þorsteini sjálfum fannst sér ekki hafa tekist að brjóta þessi efni til mergjar
svo að hann mætti fyllilega vel við una. En það sem liggur eftir hann um lík-
ingar og sköpunargáfu, hugmyndir sem ganga að mörgu leyti í berhögg við
ríkjandi meginviðhorf í málspeki og hugfræðum, er að mínum dómi ekki að-
eins frumlegasta og merkasta framlag hans til heimspekinnar, heldur eru
þetta hugmyndir sem eiga erindi við miklu stærri lesendahóp en þær fengu
(ekki síst eiga þær erindi við heimspekinga samtímans). Meginhugmyndin
er sú að möguleikinn á líkingum, á því að nota orð öðruvísi en áður hefur
verið gert, sýni að hugmyndin um reglur um merkingu sé andvana fædd.
Líkingar sýna veruleikann í nýju ljósi og þær eru ófyrirsegjanlegar (í þessu
felast tengslin við sköpunargáfu).
Þorsteinn átti ef til vill erfitt með að gera upp við sig hvort hann vildi held-
ur vera snjall alþýðufræðari eða alþjóðlegur fræðimaður. Hann birtist löng-
um í líki beggja og auðvitað getur þetta farið ágætlega saman. Hann úthst-
aði og rökstuddi hugmyndir sínar um líkingar og annað fyrir íslenskum
lesendum. I leiðinni kynnti hann þeim fræðaheim sinn og hvað aðrir heim-
spekingar voru að hugsa. En það var eins og hugmyndamiðlarinn og hinn
frumlegi hugsuður toguðust dálítið á í honum og sá fyrrnefndi hefði til-
hneigingu til að hafa vinninginn. Það var heppilegt fyrir íslenska lesendur, en
síðra fyrir fræðaheiminn. Alltént kastaði Þorsteinn sér aldrei af fullri einurð
út í hina alþjóðlegu heimspekiumræðu með fyrrnefndar hugmyndir sínar,
þótt eitthvað birtist eftir hann á ensku og hann héldi fyrirlestra um þær við
erlenda háskóla. Vera má að honum hafi ekki fundist hann vera kominn
nógu langt með þær. Ef hann mat það svo, held ég að það hafi ekki verið rétt
mat. Hann hafði nóg til að þær hefðu vakið réttmæta athygli. Alltént er
óskandi að einhver annar taki upp þráðinn.