Hugur - 01.01.2007, Qupperneq 85
Málsvörn
83
hvern hátt takmörkuð og siðferði snúist umfram allt um eigin sjálfsskilning og
sálarheill. Eg hef orðað ýmsar efasemdir um að greining Jóns á nytjahugsun og
sókratískri hugsun fangi þennan greinarmun eins vel og hann vonast til; það
breytir þó engu um að Jón hefur unnið þarft verk með því að hjálpa lesendum að
gera sér ljóst hvaða „siðferðisheimi“ hjarta þeirra tilheyrir.
Jón þarf hins vegar stundum að gæta sín á því að gefa sér ekki fyrirfram niður-
stöðuna sem sanna á. Hann segir til dæmis á einum stað að „sá sem fremur illvirki
og réttlætir það með því að vísa til hamingju og velfarnaðar" spyrji sig ekki í al-
vöru að því „hvort hamingja eða velferð sem byggist á slíku illvirki sé þess virði“
(s. 53). Frumspurningin er þó vitaskuld ekki sú hvernig réttlæta eigi „illvirki"
heldur hin hvort sá sem fær af sér að grípa til skelíilegra aðgerða til að afstýra enn
skelfilegri afleiðingum hafi í raun framið illvirki eða ekki.
2.1
Róbert H. Haraldsson beinir fránum sjónum að ritgerð þar sem ég skýri og ver
dygðina stórmennsku (megalopsychia) hjá Aristótelesi og sting upp á því, í fullri
alvöru, að heija hana til vegs og virðingar í nútímanum.22 Stórmennið, í lýsingu
Aristótelesar, er mikils vert, siðferðilega, og telur sig mikils vert. Það hefúr sterka
sjálfsvirðingu, er sómakært (en er þó sóminn ekki of, heldur mátulega, kær) og
lætur engan vaða yfir sig. Á allri framkomu þess er ákveðinn snikkur sem ber með
sér hve vant það er að virðingu sinni og til hvers það ætlast af sjálfú sér og öðr-
um.23
Það er engin hending að stórmennskuhugsjónin hefur orðið útundan þegar
ýmsar aðrar dygðir Aristótelesar hafa verið endurreistar í siðfræði nútímans. I
fyrra lagi eru ýmis einstök ummæli Aristótelesar um stórmennið í besta falli sér-
kennileg og í því versta fráhrindandi, að minnsta kosti við fyrstu sýn. Stórmennið
virðist þannig verkasmátt, hvíldrækið, kaldlynt og fjarhuga nema vænleg afreks-
verk og heiður séu í boði. I öðru lagi lýta stórmennskuhugsjónina, frá sjónarhóli
nútímasiðfræði, ýmsar dýpri heimspekilegar ávirðingar er marka siðferðilegan
hugarheim fornaldar: Gert er ráð fyrir að það sé blygðun eða skömm fremur en
sektarkennd sem bandar okkur frá refilstigum ódygðarinnar; að skortur á lífsláni,
en ekki aðeins góðum vilja, geti heykt okkur siðferðilega; hetjudáðir séu meira
virði en hversdagsdáðir; hógværð sé dygð en ekki auðmýkt; og menn séu mis-
verðugir siðferðilega, en ekki jafnir að manngildi, eftir því hvernig þeim hafi tek-
ist að fullgera mannkosti sína. Stærsti hluti ritgerðar minnar fer í að sannfæra
lesandann um að þessar almennu forsendur séu í raun ekki lýti á siðferðilegum
hugarheimi fornaldar heldur séu þær á ýmsan hátt farsælli - hollari mönnum -
en öndverðar forsendur nútímasiðfræði. Athyglisvert er að Róbert gefur þessu
meginviðfangsefni mínu nánast engan gaum; það verður ekki ráðið af ritgerð
22 Sjá „Endurreisn mildllætis og stórmennskan" eftir Róbert. Ritgerð mín, „Stórmennska", birtist upphaflega í
Skírni, 172 (vor 1998) en er endurprentuð í Mannkostum (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2002).
23 Aristóteles, Siðfræði Nt'komakkosar, fyrra bindi, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson (Reykjavík: Hið íslenzka bók-
menntafélag, 1995), s. 346-354 [1123334-1125335].