Hugur - 01.01.2007, Blaðsíða 81
Málsvörn
79
stefnu og nútíma dygðafræðum. Kantistar gætu, svo að dæmi sé tekið, haft ástæð-
ur fyrir því að aðhafast ekki - í aðstæðum dæmisagnanna sem ég reifa - er hvergi
koma í námunda við „umhyggju fyrir eigin hreinleik“; ef til vill væri nær að saka
þá um of litla en of mikla sjálfsumhyggju!
Eg hef lengi beðið í óþreyju eftir því að einhver talsmaður dygðafræða sam-
tímans svaraði gagnrýni minni á innlendum vettvangi. Hún beinist sem fyrr segir
að þeim og engum öðrum. Jón svarar henni hins vegar út frá sjónarhóh Sókratesar
og það flækir málið talsvert. Sókrates er að vísu dygðafræðingur af vissu tagi en
hann greinist frá nútíma dygðafræðingum af ýmsum ástæðum. Ég skal nefna
tvær hér. Sú fyrri er að Sókrates stillir upp ákveðinni forgangsröð dygða þar sem
réttlætið er í öndvegi; nútíma dygðafræðingar forðast yfirleitt sh'ka goggunarröð
og telja jafnvel að dygðirnar séu innbyrðis ósammælanlegar.14 Hin síðari er að hjá
Sókratesi tengist dygðakenningin beint ákveðinni sálfræðikenningu þar sem
réttlát sál er lögð að jöfnu við heilbrigða sál: sál þar sem jafnvægi ríkir milli hinna
stríðandi þátta girnda, skaps og skynsemi. Sá sem er óréttlátur er annaðhvort
fávís (í þörf fyrir fræðslu) eða óheilbrigður (í þörf fyrir lækningu). Þetta skýrir þá
skoðun hans, sem Jón útmálar sterkum litum, að betra sé að þola ranglæti en að
beita því; sá sem beitir ranglæti skipulega og af ásettu ráði er sjúkur á sálinni. Jón
höndlar anda þessarar skoðunar ágætlega er hann segir að samkvæmt Sókratesi
sé sá sem getur tekið á sig ranglæti annarra, umborið og þolað þjáningu æðrulaust,
„sterkari, heilbrigðari, réttlátari og - þrátt fyrir allt - hamingjusamari manneskja
en sá sem verður að umbreyta þjáningu sinni yfir í ofbeldi gagnvart öðrum“
(s.52).
Nú vill að vísu svo til að í dæmisögunum sem Jón gerir að umtalsefni snýst
valið ekki um að taka á sig ranglæti annarra gagnvart því að beita aðra ranglæti,
né um vægi réttlætis gagnvart öðrum siðferðisgildum;15 valið snýst um það hvort
maður eigi eða eigi ekki að hafa áhrif á hvort ranglæti annars aðila bitnar á þriðja
aðila (einstaklingi) eða fjórða aðila (hópi einstaklinga). En látum það liggja milli
hluta að sinni. Það sem meira máli skiptir hér er að Jón ver, fyrir hönd sína og
Sókratesar, miklu róttækari skoðun en þá sem nútímadygðafræðingar (eða læri-
faðir þeirra, Aristóteles) myndu samþykkja: þá að siðferði snúist ekki um mark-
mið á borð við hamingju (Mill), farsæld manns sjálfs (nútíma dygðafræði) eða
farsæld manns sjálfs og annarra (Aristóteles) heldur sjálfan skilning okkar á góðu
og illu og/eða andlega heilbrigði. Sá sem breytir rangt leggur annaðhvort rangan
skilning í merkingu lífs síns og merkingu siðferðisins eða er andlega vanheill.
Þessi skoðun kemur hvergi skýrar fram en einmitt í samræðunni Gorgíasi sem
Jón vitnar til og ekki síst glímu Sókratesar þar við siðleysingjann Kalh'kles.
14 Foot talar að vísu stundum um réttlætið sem einhvers konar yfirdygð, sjá t.d. „Utilitarianism and the Virtues",
Mind, 94 (1985), s. 206, en sú skoðun er ekki réttlætt á grunni dygðafræða hennar.
15 Mill fjallar að sjálfsögðu ítarlega um þetta efni í 5. kafla Nytjastefnunnar, þýð. Gunnar Ragnarsson (Reykjavík:
Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998), og kemst þar að þeirri niðurstöðu - út frá hrcinum nytjastefnuforsendum
- að valið verði oftast réttlætinu í vil, enda sé réttlætið heiti á tilteknum siðferðiskröíum sem ef á heildina er
litið eru nytsamlegri fyrir samfélagið og leggja mönnum því þyngri skyldur á herðar en aðrar siðferðiskröfur.