Hugur - 01.01.2007, Blaðsíða 70
68
Gunnar Harðarson
Mörk listarinnar og markaleysi
I upphafi bókar sinnar um Draumalandið fjallar Andri Snær Magnason um hug-
myndir og virðist gera því skóna að þær lifi nánast sjálfstæðu lífi í tíðarandanum
og hending ráði því hvar þær ber niður.9 Franska skáldið Paul Valéry mun hafa
orðað áþekka hugsun og sagt frá því að sér hefði einu sinni dottið í hug laglína og
hugmynd að tónverki, en gallinn hefði bara verið sá að hugmyndin hefði ekki
ratað í réttan huga, því að Valéry væri rithöfimdur en ekki tónskáld. I tilviki Hall-
dórs Laxness og Walters Benjamin er þó kannski nærtækara að gera ráð fyrir að
sami veruleiki hafi vakið sömu grundvallarspurningarnar. Hinn sjónræni veru-
leiki nútímans, sjónmenningin, er að taka á sig mynd á þessum tíma og viðbrögð
þeirra Halldórs og Benjamins við þessum veruleika, svör þeirra, eru ekki óáþekk.
Grunnhugmyndin er sú að tæknin breyti eðli myndlistarinnar og skilyrðum
hennar, en færi um leið sömu eða svipaðar upplifanir í annað form. En þar sem
Benjamin hafnar eldri kenningum á borð við eftirlíkingarkenninguna ásamt með
hefðbundnu listhugtaki, hafnar Halldór listhugtakinu í rauninni á grundvelli
hinnar úreltu eftirlíkingarkenningar. Báðir tengja nýja tækni hugmyndafræði-
legum og þjóðfélagslegum aðstæðum. Laxness vill ekki ræða uppruna listarinnar
í trúarbrögðum, en þangað sækir Benjamin einmitt hugmyndina að hinum nýju
hugtökum sínum um dýrkunargildi og sýningargildi. Báðir líta á tæknina sem
drifkraft framfara í listunum og telja að tæknin hafi afdrifaríkar afleiðingar fyrir
listsköpunina og áhrif á hana.
Ritgerðir þeirra Halldórs Laxness og Walters Benjamin voru ritaðar á fyrri
hluta 20. aldar. Þá voru ljósmyndir, kvikmyndir og hljómplötur hápunktar tækni-
þróunarinnar. Síðan þá hefur margt breyst. Hönnun, arkitektúr og skipulag hafa
mótað umhverfi okkar í enn ríkara mæli en áður. Auk þess eru komnir til skjal-
anna stafrænir skjá- og hljóðmiðlar og stafrænar tökuvélar sem eru í svipaðri
stöðu og Kodak-vélin á þeim tíma þegar Halldór Laxness skrifaði grein sína. Það
sem greinir stafrænu tæknina frá fyrri tækni er að nú er sama tækni að baki því
sem birtist sem mynd, kvikmynd eða hljóð og úrvinnslan fer fram í tölvum, hvort
heldur fyrir mynd, kvikmynd eða hljóð. Allir geta búið til kvikmynd með til-
tölulega litlum tilkostnaði, allir geta hlaðið niður lögum af netinu og búið til eigin
tónlistarsöfn á diskum eða iPod. Verk í stafrænu formi eru ólík fyrri fjölföldunum
að því leyti að í stafrænum verkum er eftirmyndin nákvæmlega eins og frum-
myndin, það er alls enginn munur á þeim, nema ef til vill dagsetningin sem segir
hvenær viðkomandi skjal var myndað. Hvar og hvað er þá frummyndin? Og hvað
verður um hugtök Walters Benjamin um sýningargildi og dýrkunargildi í hinum
stafræna heimi fjölfelda?
Svo virðist sem tæknin hafi haldið áfram að leysa upp listhugtakið og veki jafn-
framt upp áleitnar spurningar um gildi og svið fyrri listhugtaka og hugmynda. Er
höfundar- og frumleikahugtakið úrelt? Hver er áhorfandinn í gagnvirku lista-
verki? Hvaða merkingu hefúr listin þegar hún er skoðuð út frá upplifún áhorf-
andans? Ökum við um landslagsmálverk? Er bíll hreyfiskúlptúr? Hvar liggja
9 Andri Snær Magnason, Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hraddriþjóð, Reykjavík, 2006, bls. 17 o.áfr.