Hugur - 01.01.2007, Qupperneq 138
136
Hjörleifur Finnsson
kosti íyrir þann möguleika, sem aftur leiðir til þvingunar og ofbeldis ögunar-
valdsins. Vandi iðnaðarkapítalismans felst hvað þetta varðar í því að þegar ögunar-
formin hafa verið fullkomnuð og búið er að hámarka framleiðni færibands og
einstaklinga og öllum efnislegum þörfum hinna sjálfráðu einstaklinga er fullnægt,
þá fara þeir að staðna sem neyslu- og framleiðslueiningar. Þetta lífvaldskerfi full-
nægir þannig ekki lengur útþensluþörfum kapítalismans.15
I stýringarsamfélögum eftirnútímans er valdið hins vegar falið. Það kemur ekki
lengur utanfrá og er því ekki sýni/egtá. sama hátt. Stýringin byggir ekki á bönnum
eða fyrirskipunum sem eru statísk ögunarform. Hið nýja lífvald stýrir dýnamík
sjálfsverulífsins í farveg sem greiðir fyrir útþenslu kapítalismans; það fer leið
gagnvirkrar framleiðni og neyslu. Frelsið verður neysluvarcv. Síminn selur þér
„frelsiskort" og segir þér í næstu auglýsingu að það sé „þín hugmynd". Volkswagen
á Spáni höfðar í auglýsingum sínum til vinstrisinnaðra menntamanna með svið-
settri samfélagsgagnrýni16 sem endurspeglar og endurtekur þá tálsýn mennta-
manna að í krafti samfélagsgagnrýni sinnar séu þeir frjálsir. Volkswagen kemur
þannig á fót ómeðvituðum tengslum „frelsisins" og vörunnar í kollum gáfumanna.
Calvin Klein selur nærbuxur undir slagorðinu ,Just be“, sem lofar hinu fullkomna
frelsi hreinnar veru. Helsta einkenni þeirrar manngerðar sem Deleuze nefnir
stakling, (ein)staklings stýringarsamfélaga, er að hin skýru mörk sjálfsemdar (sem
einkenndi hinn sjálfráða og sjálfsprottna einstakling upplýsingarinnar og mann-
hyggjunnar) rofna: hið innra og hið ytra renna saman í eitt. Innstu þrár, langanir
og sköpunargáfa staklingsins lúta rökvísi félagslegrar og menningarlegrar fram-
leiðslu kapítalisma eftirnútímans. Fáguð rökvísi stýringarsamfélagsins birtist
staklingnum ekki lengur sem framandi eða utanaðkomandi vald heldur sem
eitthvað sem sprettur úr hans eigin brjósti („þetta er [m]ín hugmynd"). Upplausn
afmörkunarkerfa nútímans opnar hinum nýja kapítalisma eftirnútímans gríðar-
lega framleiðslu- og útþenslumöguleika: samskiptatækni, upplýsingatækni, líf-
tækni, einkavæðing, útvíkkun einkaleyfa, þensla eignarréttar og markaðsvæðing
hins félagslega. Eg hef þegar fjallað að einhverju marki um þessa þætti í annarri
grein en sá þáttur sem ég hyggst skoða nánar hér eru framleiðslumöguleikar
tengdir ótta og óöryggi og hlutverk staklingsins í því samhengi. I tengslum við
öryggisframleiðsluna er þörf á því að skoða nánar hina nýju sjálfsverumynd, stakl-
inginn, sem er eitt af því sem greinir nútímann frá eftirnútímanum, og tengsl
hennar við áhættur og áhættustjórnun.
15 Eins og kunnugt er þrífst kapítalismi ekki án vaxtar og útþenslu. Þegar hann rekst á mörk (félagsleg,
menningarleg, pólitísk eða „náttúruleg") lendir hann í kreppu stöðnunar sem ógnar tilvist hans. Það var
einmitt í kjölfar kreppu hans í upphafi áttunda áratugarins sem umskipti urðu frá framleiðsluháttum og
lífvaldi nútímans yfir í framleiðsluhætti og lífvald eftirnútímans. Eitt af því sem knúði á um þessa breytingu
var að hinar afmörkuðu einingar voru (of) takmarkandi. Um þessi umskipti má lesa nánar í grein minni „Af
nýju lífvaldi", Hugur (2003). Um nauðsyn vaxtar fyrir kapítalismann, sjá nánar Negri og Hardt, „Lífpólitísk
framleiðsla“, Hugur (2003).
16 I anda t.a.m. heimildarmyndarinnar The Corporation (2003), sem fjallar á mjög gagnrýninn hátt um tilkomu
stórfyrirtækja og hlutverk þeirra í samtímanum.