Hugur - 01.01.2007, Page 174
172
Davíö Kristinsson
áhyggjur andstæðinga stórmennskuhugsjóna: „Mikillæti virðist [...] hafa á sér
yfirstéttarbrag" (FA 56). Ljóst er hins vegar að svo er ekki hjá Róberti frekar en
hjá Emerson („Eg dáist að stórmennum úr öllum stéttum“70) eða Channing:
Hin sönnu mikilmenni má hvarvetna finna og það er ei unnt að segja, í
hvaða stétt þeir flestir fæðast. Sönn mikilmennska á ekkert skylt við
stöðu manna. Hún er ekki fólgin í því, hve miklu hann orkar út á við, í
mikilleik ytri framkvæmda. Hinir mestu menn eru opt ekki að því skapi
afkastamiklir út í frá. [...] Mannsins mikilleiki er allur fólginn í sálar-
krapti, það er í krapti hugsunar, siðferðistilfinningar og elsku, og þetta
má finna í lægstu stétt lífsins.71
Þegar á ræðu Channings líður kemur í ljós viss togstreita, sem finna má víðar hjá
únítörum, milli þeirrar ábendingar að „það liggur í hugmyndinni að vera frábær,
að maður gnæfi yfir fjöldann" og þeirrar hughreystingar handverksmannanna að
umrædd „mikilmennska sé almennust meðal fjöldans, þótt enginn heyri nafnanna
getið.“72
Eins og titill ræðunnar gefur til kynna fjallar hann þó fyrst og fremst um „sjálfs-
menntun, eða þá rækt, er hver maður er skyldur að leggja við sjálfan sig, til þess að
glæða og fullkomna eðli sitt“, því „fullkomnun mannsins, vöxtur og viðgangur
mannlegs anda, sé það mikla takmark, sem guð vill láta oss ná“.73 Channing
leggur áherslu á að hver og einn verði að fara sína leið við að rækta sjálfan sig í átt
að fullkomnun, „ekki einungis hvað bækur snertir heldur og í fleirum hlutum
verður sjálfsmenntunaraðferðin að vera mismunandi eptir því sem mennirnir eru
misjafnir. Oll meðöl eiga ekki við alla jafnt. Maður á að menntast frjálsmannlega,
og taka tillit til hverrar gáfu eða tilhneigingar, sem náttúran hefur gætt hann
umfram aðra menn. Sjálfsmenntunin heimtar ekki, að mannseinkunnin sé lögð í
sölurnar fyrir sig. Hún viðhefur ekki án tilbreytingar neina vissa skrúfuvél til þess
að teygja hvern einstakan mann í það mót, sem nefnist fullkomnun."74
Channing leggur ennfremur áherslu á
eitt áríðandi sjálfsmenntunarmeðal, það, að vér losum oss við yfirdrottn-
un annara skoðunarháttar og eptirdæmis, nema að svo miklu leyti sem
vér samþykkjum slíkt eptir nákvæma umhugsun. Oss hættir öllum við að
halda sama stryki og samferðamenn vorir, hafa upp þeirra orð, og klæða
sál vora ekki síður en líkamann eptir þeirra klæðasniði; og héðan sprettur
hin íjörlausa spekt í eðlisfari voru og framferði. Vor mesti háski stendur
[...] af hinum heimslega, hugsunarsljófa fjölda, sem lætur berast með
straumnum af áhrifum utan að, og fleytir oss ásamt með sér. Enda hágáf-
aðir menn geta haft skaðvæn áhrif á oss, þegar þeir beygja oss til blindrar
70 Emerson, „Uses of Great Mcn“, Representative Men, 1850, London: Routledgc, 1899, s. 9-38, hér s. 27.
71 Channing, „Sjálfsmenntun", s. 108-109.
72 Sama rit, s. 110.
73 Sama rit, s. m, 141.
74 Sama rit, s. 137.