Hugur - 01.01.2007, Qupperneq 177
Milli Guðs ogfjöldans
175
I hvert sinn sem tegundin „maður“ hefur komist á æðra stig hefur það
verið árangur samfélags þar sem höfðingjar réðu ríkjum - og svo mun
ætíð verða — samfélags sem trúir því að í virðingarstiganum séu mörg
þrep og að menn haíi misjafnt gildi, samfélags sem þarfnast þrælahalds í
einhverjum skilningi. [...] Vissulega ber að varast að vaða af einhverjum
ástæðum í villu og svíma um það hvernig höfðingjasamfélag (með öðrum
orðum forsenda þess að tegundin „maður“ geti komist á æðra stig) verður
til. Sannleikurinn er óblíður.83
Hugmynd Channings um hin guðlegu frjókorn í mönnunum sem öll koma úr
sama guðdómseldinum útilokar hins vegar úrvalshyggju af þeirri gerð sem Nietz-
sche boðar:
Sú ætlan manna er vissulega ekki veik, að hinn alvísi faðir, sem hefur
sérhverjum manni gefið skynsemi, samvizku og elsku, hafi til þess ætlazt,
að þetta fengi þroska; og því er torvelt að trúa, að hann, sem gjörði alla
menn að börnum sínum með gjöf þessa eðlis, hafi ákvarðað meginfjölda
þeirra til þess að eyða tilveru sinni í stríði og striti án sannra framfara
fyrir fáeina menn. Guð hefur aldrei skapað verur gæddar anda til þess að
verða að andlegum umskiptingum.84
Síðar ítrekar Channing:
Sú kenning er of hryllileg til að þurfa hraknings við, að allur meginfjöldi
mannlegra sálna, eins gæddar og þær eru andlegum og ódauðlegum gáf-
um, séu settar á jörðina einungis til þess að þrælka fyrir dýrslegum þörf-
um og til að ala óhóf og ofmetnað hinna fáu. Það er óttalegt, það nálgast
guðleysi, að ímynda sér, að guð hafi sett ósigrandi slagbranda fyrir vöxt
og viðgang hinnar frjálsu og ótakmörkuðu sálar.85
Svar Nietzsches, hins guðlausa úrvalshyggjusinna, við kristilegum jafnaðarhug-
sjónum Channings hefði getað hljómað svo: Sannleikurinn er óblíður. Guðleysi
Nietzsches er grundvallaratriði sem skilur hann frá Channing og yngri únítörum.
I fjarveru velviljaðs skapara er sannleikurinn óblíður. Og þótt náttúra Nietzsches
hafi sinn „vilja", eða nánar til tekið sína nauðsyn, er hún ekki opinberun Guðs að
hætti únítara. Ólíkt guðlegri, og því siðferðilegri, náttúru únítaranna er náttúra
Nietzsches siðlaus og arðrán manna því handan góðs og ills. I skrifum Nietzsches
er enginn skapari sem ætlast til þess að sérhver maður leitist við að fullkomna sig,
og þó svo að greina megi ákveðna tegund fullkomnunarhyggju í skrifum hans er
hugsjón hans þó ekki sú að allir menn fullkomni sig. I heimspeki Nietzsches er
engin guðleg uppspretta sem sameinar alla menn sem ættu þannig hlut í sama
83 Nietzsche, Handan góðs og ills, §257.
84 Channing, „Sjálfsmenntun", s. 158.
85 Sama rit, s. 166.