Hugur - 01.01.2007, Page 182
180
Davíð Kristinsson
getur hin persónulega sannfæring eins manns orðið skoðun allra sem opna sig
fyrir innstreymi sannleiksgeislanna. Einingarfrumspeki Emersons gerir það að
verkum að einstaklingurinn er konkret algildi, í senn persónulegur og ópersónu-
legur, einstæður og almennur. Að mati Emersons er „tjáning sálarinnar á sannleika
æðsti viðburðurinn í náttúrunni"122 enda kemur sannleikurinn að ofan og þar með
að innan: „Yfirlýsingar sálarinnar, birting hennar á eigin náttúru nefnum við
opinberun. Þeim fylgir ávallt háleit tilfinning því þessi tjáskipti eru innstreymi
hins guðdómlega huga inn í okkar huga. [...] Unaður fer um sérhvern sem tekur
við nýjum sannindum".123 Þetta innstreymi veitir viðtakandanum sýn sem lyftir
honum upp fyrir hið einstaklingsbundna: „Ég verð gagnsæ augnkúla; ég er ekkert;
ég sé allt; straumar alheimsverunnar eru á hringrás innra með mér; ég er hluti eða
ögn af Guði.“124
Hugmyndir Emersons um eftirmyndir og andagift eru sömuleiðis samtvinn-
aðar einingarfrumspeki. Guð er frjóvgunarkraftur,125 það er „hin guðdómlega sál
sem fyllir [...] alla menn andagift."1261 ljósi þessa er allajafna eðlilegt að þýða
notkun Emersons á hugtakinu genius sem „andagift" fremur en guðlausa „snilld“.
Eins og einingarfrumspeki Emersons í heild sinni er hugmynd hans um andagift
í meginatriðum samræmanleg lýðræðislegum jöfnuði og fráhverf þeirri úrvals-
hyggju sem einkennir útvalningu Kalvins og úrvalshyggju Nietzsches: „sérhver
sál á kost á andagift, sé hún ekki stöðvuð."127 Sálin þarf einungis að virkja það
sem þegar er til staðar: „Það eina sem hefur eitthvert gildi í heiminum er hin
virka sál sem allir menn eiga tilkall til. Hún er innra með sérhverjum manni þótt
hjá flestum mönnum sé hún teppt, enn ófædd. Hin virka sál sér, tjáir og skapar
algildan sannleika. I þessari athöfn er hún snilligáfa; hvorki forréttindi né eftirlæti
heldur traust eign sérhvers manns.“128 Allir geta raungert það sem hinir fáu virku
hafa komið í verk: „Allt sem Adam hafði til að bera, allt sem Sesar var fær um,
hefur þú og getur."129 Það sem í þeim býr er innra með okkur öllum: „Ef við
sjáum viðkomandi í réttu ljósi hefur hann að geyma hina einstöku náttúru allra
manna. Sérhver heimspekingur, sérhvert skáld, sérhver leikari hefur sem sendi-
fulltrúi aðeins gert fyrir mig það sem ég mun einhvern daginn geta gert sjálfur.“
Stórmennin vekja okkur til vitundar um að við getum orðið meiri en við erum nú:
„Þegar við sjáum sigurvegarann [...] verður okkur ljóst að við höfðum miklað
tálmana fyrir okkur."130 Sérhverjum stendur til boða að virkja sál sína, raungera
hið guðlega innra með sér, hleypa hinu sameiginlega ljósi inn, því eins og
einingarfrumspeki Emersons kveður á um er það ,,[e]itt ljós sem geislar úr þúsund
stjörnum."
122 Emerson, „The Over-soul“, SWE 301.
123 Sama rit, s. 301-302.
124 Emerson, „Nature", SWE 184.
125 Sbr. orðalag í nafnlausri grein um „Dr. William Ellery Channing" í Heimi 1904, s. 124.
126 Emerson, „The American Scholar", SWE 245.
127 Joumals of Ralph Waldo Emerson 1820-1872,9. bindi, s. 313 (feb. 1861).
128 Emerson, „The American Scholar", SWE 230.
129 Emerson, „Nature“, SWE 224.
130 Emerson, „Circles", SWE 324.