Tímarit Máls og menningar - 01.01.1988, Síða 60
Tímarit Máls og menningar
Fyrir framan þau er sandurinn alveg ósnortinn, gulur og mjúkur
allt frá klettinum að vatninu. Börnin þokast fram í beinni röð, með
jöfnum hraða, án þess að taka á sig nokkurn minnsta krók, róleg og
leiðast. Fyrir aftan þau sandurinn, rétt aðeins rakur, markaður þrem
röðum af sporum sem berir fætur þeirra skilja eftir, þrem regluleg-
um endurtekningum af sporum sem líkjast og eru með sama bili, vel
mótuð, án misfellu.
Börnin horfa beint fram fyrir sig. Þau renna ekki auga til kletta-
beltisins háa, vinstra megin, né til sjávarins, þar sem öldurnar smáu
bresta af og til, á hina höndina. Enn síður verður þeim fyrir að snúa
sér við, til að virða fyrir sér farinn spöl. Þau halda áfram leiðar
sinnar, með jöfnum skrefum og hröðum.
Fyrir framan þau spígsporar hópur sæfugla um ströndina, alveg í
flæðarmálinu. Þeir færast fram jafnhliða göngu barnanna, í sömu átt
og þau í um það bil hundrað metra fjarlægð. En þar eð fuglarnir fara
miklum mun hægar, nálgast börnin þá. Og þar sem öldurnar þurrka
jafnharðan út stjörnuförin eftir fæturna, þá geymast spor barnanna
letruð snyrtilega í sandinn sem er rétt aðeins rakur og þrjár spora-
línur halda áfram að lengjast þar.
Dýpt þessara spora er söm: næstum tveir sentímetrar á hæð. Þau
eru ekki afskræmd, hvorki við hrun bakkanna né við að hællinn
gangi of djúpt, né táin. Þau virðast skorin skörpu móti í yfirborðs-
lag landsins, einsog búnaður þess væri.
Þannig teygist hin þrefalda lína þeirra, æ fjær, og virðist samtímis
hjaðna, hægjast, renna saman í eitt far sem greinir sjávarbakkann í
tvær ræmur, eftir endilöngu, sem lýkur í fínlegri vélrænni hreyfingu,
þarna fyrir handan, eins og hún gerðist öll á staðnum: að ýmist
hnígi eða hefjist sex berir fætur.
Eftir því sem fæturnir fjarlægjast, færast þeir samt nær fuglunum.
Ekki einasta færast þeir óðfluga áfram, heldur minnkar hin hlutfalls-
lega fjarlægð sem aðgreinir hópana tvo enn miklu örar, miðað við
þann veg sem þegar er farinn. Brátt verða ekki nema fá skref milli
þeirra . . .
En þegar þau virðast loks í þann veginn að ná fuglunum, þá berja
þeir skyndilega vængjunum og hefjast til flugs, fyrst einn, síðan
tveir, síðan tíu . . . Og allur flokkurinn, hvítur og grár, hnitar hring
50