Tímarit Máls og menningar - 01.01.1988, Page 88
Tímarit Máls og menningar
Skógurinn speglast í utanverðum klæðaskáp.
Undan sænginni njósna ég um útsýnið. (116)
Hún sér í og gegnum margföld gler: rúðu, sjónvarpsskerm og spegil.
Sjálf er hún innilokuð, lárétt í rúminu og undir sæng. Þannig kíkir hún líka
„á annarra kossa í sjónvarpi. Dösuð undir sæng“ (115).
Alda gengur í björgin, samþykkir augnaráð karlveldisins sem skilgrein-
andi afl. Það verður henni að falli. Hún ferst þegar augnaráðið/speglunin
bregst og hún hefur ekkert lengur til að skilgreina sig út frá, halda sér í.
Það gerist þegar hún er 44 ára, komin á þann aldur þegar konur hætta að
vera kynferðisleg viðföng í augum samfélagsins, gengnar úr sjónmáli þess.
I háa herrans tíð
I greininni „Le temps des femmes“ — eða tími kvenna, fjallar Julia Krist-
eva um tímahugtakið og mismunandi skilgreiningar þess.22 Hún bendir á að
tími sögunnar/sagnfræðinnar og stjórnmálanna sé línuréttur tími, varðaður
ákveðnum tímasetningum og áföngum, upphafi og endalokum. Þessi tími
er ríkjandi, en hann hentar ekki konum. Tími þeirra er tími hringrásarinn-
ar, ferlisins, endurtekningarinnar og eilífðarinnar.
Þetta mismunandi tímaskyn má greinilega sjá í Tímaþjófnum og skiptir
þar miklu máli jafnt í frásögninni sem atburðarásinni. Tími Antons og
þjóðfélagsins er tími klukkunnar og dagatalsins, tími í föstum skorðum.
Tími Öldu (og sögunnar) er hins vegar annar. Alda hugsar í árstíðum,
jólum, páskum og ferli náttúrunnar, og tími hennar fer eftir sólargangi,
ljósi og myrkri:
Skammdegið var okkar tími. Árstíðin okkar. Við heilsuðumst í myrkri og
kvöddumst í myrkri. Við urðum ekki vitni að morgunsól snemma og kvöld-
sól seint. Skammdegisárið mikla. Sólarstundir fæstar. (103)
Hún á mjög erfitt með að aðlaga sig línuréttum tíma og er í sífelldri
baráttu við hann. Þannig tengist tíminn mjög samskiptum (og symbíósu)
þeirra Antons og yfirvofandi aðskilnaði. Anton skammtar henni dagana
100 og tími þeirra saman er alveg á hans forsendum. A þetta er lögð sérstök
áhersla með sjálfu nafni bókarinnar og er hvað eftir annað endurtekið í
sögunni:
Mundirðu tímann sem við áttum aldrei eftir að eiga saman, af því þú tókst
hann frá okkur að tilefnislausu. Tímaþjófur. Friðþjófur. (170).
Einnig hann ræður stopulum fundum þeirra þessa hundrað daga. Alda
bíður, vonar og þiggur:
78