Tímarit Máls og menningar - 01.01.1988, Qupperneq 86
Tímarit Máls og menningar
leg. Þegar allt var farið í hund og kött og kærastarnir horfnir ef einhverjir
voru og jafnvel búnir að svíkja mig og Sigga og Alma farnar að skamma mig
fyrir lauslæti með léttu fussi þá leit ég í spegilinn og sjá: það var harla gott.
Því andlitið á mér var ekki aðeins fallegt, heldur einnig innihaldsríkt og ég
vissi að ég hafði dásamlega verkan á aðra. Það vildu mig allir. . .
Nú ef einhver var dauður eða ég hafði orðið fyrir auðmýkingum. . . þá leit
ég aftur í spegil og ég málaði mig fagurlega og ég tyllti hárinu í hnút og ég
fór í svarta taftkjólinn og sjá, það var ekki síðra. (168)
Með þessari grótesku vísun í sköpunarsöguna er Oldu ekki aðeins líkt
við skaparann heldur einnig sköpunarverkið sjálft. Þannig varpar textinn
oft krítísku ljósi á vitund og gerðir persónunnar Öldu, um leið og hann
dáist að henni og finnst hún sniðug. Talið verður tvíbent, hrós og háð um
leið.
Markmið Öldu er að aðrir, þ.e. karlmenn, vilji hana, og hún sér sig
aðeins sem kynferðislegt viðfang. Það úir og grúir af slíkum lýsingum í
sögunni, sem í senn lýsa óskhyggju og þráhyggju: Allir eru vitlausir í
Öldu.
A ferðalagi í París röltir hún um Sorbonne til þess eins að „láta strákana
dást að löppunum" á sér „fram í myrkur" (99):
Mér finnst ég flottari en þær frönsku. Það er meiri súbstans í mér. Mér
skilst á vegfarendum hér að ég sé afskaplega girnileg. . . Menn hafa mikið
verið að snúa sér við á eftir mér þessa viku. (99-100)
Það eru ekki aðeins þeir frönsku sem líta hana girndarauga, heldur einnig
þeir íslensku, sama hvar á landinu er. Um verslunarmannahelgi er Alda
komin til Akureyrar, þar sem hún tekur sig út á barnum á Hótel Kea í
sínum „aðskorna eleganta jerseykjól" (93). Frá þeim landshluta reynist
þetta eitt í frásögur færandi:
Þeir þyrptust að mér einsog flugur. Óskaplega voru þetta luralegir menn
sem ætluðu upp á mig í kvöld. (93)
Ytrasta afleiðing gláps er nauðgun, og einnig hana ætlar Alda að gangast
undir: „Hvaða máli skiptir mig eitt tippi til eða frá?“ (100). Um leið má sjá
þetta sem gróteska yfirlýsingu: Það er enginn munur á karlmönnum þegar
til kemur. Allir eru þeir í rauninni nauðgarar.
Samt sem áður sér hún dauðann fyrir sér sem kynferðislegt ofbeldi, eins
konar nauðgun. Hann kemur til þeirra beggja, Ölmu og Öldu, í líki karl-
manns, og hann m.a.s. klípur eins og Anton. Þannig lýsir hún dauða
Ölmu:
76