Húnavaka - 01.05.1972, Qupperneq 10
8
HÚNAVAKA
hlýða réttu, góðs að bíða.“ Þetta voru sönn orð þá, og enn í dag er
gifturík tilvera Islandsniðja því háð, að þeir bregðist ekki trúnaði
við Guð sinn og land sitt, að þeir vinni og unni Iandi sínu og hafi
Guð með í ráðum í sérhverju áformi og verki.
Það er ekki að ófyrirsynju eða út í bláinn, að grundvallarþættir
ísl. þjóðlífstilveru, ættjarðarástin og guðstrúin hafa verið gerðir að
umtalsefni. Hvort tveggja verður að vera fyrir hendi í nútíð og
framtíð, ef við viljum verða langlíf sem frjáshuga þjóð í landinu.
Borið saman við kynslóðir fyrri alda erum við gæfusamasta kyn-
slóðin, er þetta land hefur byggt.
Við erum að uppskera það, sem forfeðurnir sáðu með erfiði sínu
og tárum. Og það á að vera heiður okkar að halda þeim þjóðlífsakri
í rækt, er þeir fengu okkur í hendur, auka hann og efla, ekki aðeins
á sviði hinnar ytri verkmenningar, heldur einnig í heimi hugans.
Mikið græðslustarf er framundan við að hefta foksanda, stemma
stigu fyrir uppblæstri, fækka kalsárum í náttúrunni, en munum jafn-
framt, að andlegu kalsárin eru háskasamlegust og mest í húfi, að
græða megi huglendur manna. Stefán G. hittir í mark, er hann segir:
„Hið bezta, sem á grundu hverri grær, er göfug þjóð með andans
fjársjóð nógan.“ Gleymum þessu ekki, þegar skörð myndast í þjóðar-
auð og frjóvan jarðveg og lífskjör skerðast um sinn. Verst er hin
andlega fátækt, trúleysið, kærleiksleysið, vonleysið. „Hjarta í fjölda
— hjarta eitt, hvergi án trúar á þó neitt," segir skáldjöfurinn Einar
Ben. Ef þjóðin á að geta gætt þjóðfrelsis og þjóðernis í framtíð,
verður hún að eiga trú á handleiðslu Guðs, trú og ást á því landi, er
henni var fyrirheitið. Það er tímabært að árétta þetta nú, þegar
ýrnis teikn uppblásturs í þjóðlífinu eru á lol'ti. Við búum við léleg
aflabrögð og atvinnuvegir eiga í erfiðleikum. Samtakaleysi flokka
um úrræði og lausn á vanda. Hér hefur átt sér stað vitfirrt sóun fjár-
muna. Allskyns ábyrgðarleysi, svindl og brask. Ungir menn eru í
uppreisnarhug og hinir eldri úrræðalausir og þreyttir eftir dansinn
um gullkálfinn og lífsþæginda kapphlaupið. Um það verður ekki
villst, og kemur reyndar æ skýrar í ljós, að eigi hinar vtri framfarir
að leiða til góðs, verður göfgun skapgerðar, virðing, ábyrgð, trú-
mennska og heiðarleiki að eflast meðal þegnanna. En hugsjónir og
vilji til fegurra mannlífs eiga ávallt rætur sínar í trú, því að hún
ákvarðar viljastefnu einstaklingins og stýrir siðrænum viðhorfum
hans.