Húnavaka - 01.05.1972, Síða 56
54
HÚNAVAKA
handa nágrannastrákunum á afmælinu mínu. Hann sagði að ég
mætti það með því móti að hann geymdi flöskuna og væri viðstadd-
ur þegar hún væri opnuð og innihaldið notað. Ég samþykkti það
fúslega.
Berndsen gamli kaupmaður mældi mér sjálfur á flöskuna og sagði
í spaugi að ég væri áreiðanlega yngsti brennivínskaupandi, sem til
sín hefði komið. Ég tók þetta fyrir hrós og þótti fallega mælt.
Ég hafði fram að þessu ekki gert mörg og mikilvæg kaup á ævinni,
enda fannst mér flaskan með því sem í henni var, taka öllu fram,
sem ég hefði nokkurn tíma eignazt og við samanburð á hinum strák-
unum var ég viss um að enginn þeirra hafði á mínum aldri eignazt
slíkan dýrgrip, fyrr eða síðar. Þeir skyldu nú bara sjá það á afmælinu,
að ég var ekki í einu eða neinu þeirra eftirbátur, þó að ég væri yngri
en sumir þeirra. En það væri ekki allt komið undir árafjölda, heldur
smekkvísi og framtakssemi.
Það var nú minnstur vandinn að kaupa á flöskuna, en að koma
henni heim, það var þrautin þyngri. Ef ég léti hana ofan í milli á
baggahestinum, gat hann auðveldlega dottið og þá var flaskan í veði.
Reyndar hafði ég nú aldrei séð lrann detta, en þetta gat komið fyrir
þegar verst stóð á. Ég gat ef til vill haft hana í poka fyrir aftan
hnakkinn minn, en pokinn gat ef til vill verið hálffúinn, þó að ég
vissi það ekki, svo að það var ekki vogandi. Mér datt í hug að hafa
hana í vasanum, en þeir voru allir of grunnir, hún stóð að þriðjungi
upp úr. Að halda á henni í hendinni alla leið var ekki nokkurt vit,
hún var svo hál í greipinni. Að biðja pabba að geyma hana í vasa
sínum var alveg frágangssök, vegna þess hvað hann stökk stundum
ógætilega af baki, ef eitthvað þurfti að laga á hestunum.
Ég sagði honum frá þessum vandræðum mínum og spurði hann
ráða. Hann sagði mér að hætta þessari vitleysu og láta flöskuna í
hnakkpokann minn, henni væri óhætt þar, Jarpur væri ekki dettinn.
Ég varð að fallast á þetta, nauðugur þó og kvíðafullur um afleiðing-
arnar.
Við fórum af Hólanesi um háttatíma og héldum inn Ströndina.
En lengi vel þorði ég ekki annað en hafa aðra hendina á hnakkpok-
anum til þess að fullvissa mig um að allt væri í lagi.
Skammt inu á Ströndinni er grashvammur einn fagur og var hann
fastur áningarstaður lestamanna á heimleið frá Skagaströnd eða
Hólanesi.