Húnavaka - 01.05.1972, Qupperneq 105
HU NAVAKA
103
við starf sitt, því að hann hafði um langt árabil annazt póstferðir
milli Kálfhamarsvíkur og Blönduóss. Hann hafði orð á sér fyrir að
vera harðskeyttur ferðamaður, sem kom sér líka vel í vetrarferðum
á þessari leið, sem er yfir 50 km löng og þá var fátt um kennileiti.
Engir vegir upphleyptir, enginn sími, fátt um girðingar, ár óbrúaðar
og víða langt á milli bæja. Þetta setti Guðlaugur póstur ekki fyrir
sig, en fór sínum ferðum fram óhikað, þótt stórhríðar geisuðu dag
eftir dag. Síðasta veturinn, sem hann sinnti þessu starfi, var í honum
geigur, sem ekki hafði borið á áður. Honum fannst vofa yfir sér
hætta og vildi helzt ekki vera einn á ferð. Hann var 45 ára.
Valdimar sonur hans var efnismaður um tvítugt.
Jens Stiesen átti danskan föður, Stiesen söðlasmið á Hólanesi. Jens
var meðalmaður á hæð, þrekinn um herðar, þykkur undir hönd og
mun hafa haft góða burði. Hans var vani að halda upp á afmæli sitt
og síðast þegar hann gerði það vildi hann hafa venju meira við, því
að hann sagðist ekki mundi halda upp á þau fleiri. Hann óraði fyrir
feigð sinni.
Sagt var að Rögnvaldur hefði ekki viljað láta Valdimar son sinn
róa með sér þetta sumar. Ætlaði honurn pláss á öðrum bát, af því
varð þó ekki og því áttu þeir samleið til heljar.
Svo líður um það bil hálf öld frá því þetta sviplega slys varð, þá
er það að sunnan af landi kemur kona, ættuð og uppvaxin í nágrenni
Kálfshamarsvíkur, en gift manni suður á landi og eftir honum hafði
hún þá sögu að segja, að sumarið 1914 hefði hann verið á sunnlenzku
fiskiskipi og höfðu þeir verið á veiðum á Nesjamiðum, en voru með
veiðarfæri úti, þegar þeir sjá að hvalfiskur veittist að árabát. Báts-
verjar reyndu að verjast með árum, en sú viðureign tók aðeins
skamma stund unz yfir lauk fyrir bátsverjum. Þá sigldi skipið á slys-
staðinn, en þar var þá engan mann að sjá. Þeir fórust allir. Skips-
menn tilkynntu ekki slysið, en sigldu brott og höfðu það lítt á orði
lengi vel, sem þeir höfðu verið sjónarvottar að.
Vísur þær sem fram koma í þætti þessum, munu vera eftir Júlíus
R. Jósefsson, en fullvíst er það ekki.
Það sem haft er hér eftir sjómanninum sunnlenzka, hefi ég eftir
frú Önnu Gísladóttur, en hún er systir konu sjómannsins.
Helztn heimildarmenn aðrir eru Jóhann Jósefsson bóndi á Ósi og
Jón A. Ólafsson bóndi á Syðri-Björgum.