Húnavaka - 01.05.1972, Page 124
GUNNAR ÁRNASON:
Jónatan J. Líndal
óðalsbóndi á Holtastöðum
Fágæt veðursæld er í Fram-Langadal, og þar eru nokkur höfuðból,
sem víða koma við sögur. Margir uxu þar upp, sem orð fór af. Sumir
í ætt við kjarrið, aðrir stórviðina. Hér verður lítillega minnst eins
meiðsins, sem var meðal þeirra gildustu og stóð sennilega lengst
feyskjulaus.
Það stóðu ekki um hann miklir stormar og saga hans var ekki sér-
lega viðburðarrík í venjulegri merkingu, hvað þá neitt ævintýri. En
hún var samt mikil. Verkin sýna merkin.
Jónatan fæddist í Gröf í Víðidal. Föðurætt hans var bundin þeim
slóðum. Einn af forfeðrunum var Tómas stúdent Tómasson á Stóru-
Ásgeirsá, sem kvæntur var Ljótunni, föðursystur Jóns kammerráðs
á Melum. Um hana kvað faðir hennar:
Mín er ekki Ljótunn ljót,
ljótt þó nafnið beri.
Ber af öllum snótum snót,
snótin blessuð veri.
Sonur hennar Jósafat á Stóru-Ásgeirsá var talinn með beztu bænd-
um í Húnavatnssýslu á sinni tíð. Hann var langafi Jónatans á Holta-
stöðum. Ættarnafnið Líndal, sem Jónatan löghelgaði sér ungur, á
rætur að rekja til Línakradals og sprottið af minningunni um for-
feðurna, því að á þeim slóðum bjó afi hans, Jónatan á Þernumýri.
Faðirinn Jósafat Jónatansson var ágætur búhöldur, greindarmað-
ur og vel virtur. Hann var eitt kjörtímabil alþingismaður Húnveín-
inga.
Móðirin, Kristín Jónsdóttir, var skörungskona, vel gerð til sálar