Skagfirðingabók - 01.01.1983, Page 108
SKAGFIRÐINGABÓK
mælt. Hún var þrifin og góð húsmóðir. Þau hjón áttu tvær
dætur, Guðrúnu og Engilráðu. Þær voru báðar vel gefnar, kátar
og skemmtilegar. Báðar giftust þær í Skagafjörð.
Mér þótti gott að koma að Hvammi. Eg var alin upp á
fámennu heimili og þótti gaman að heyra talað um bækur. Það
kunni fróðleiksfús krakki að meta. I Hvammi var allt í röð og
reglu. Allt gekk sinn vanagang, og enginn asi var á fólkinu. Þó
var ekki verið að slæpast. Iðjusemi var þar ríkjandi úti og inni.
Unnið var hávaðalaust og hagur heimilisins ávallt borinn fyrir
brjósti af skyldum og vandalausum. Þetta kom einhvern veginn
af sjálfu sér.
Mér fannst þeir Hvammsmenn vita allt. Oft fékk eg lánaða
bók í Hvammi, oftast hjá Jóni. Mér þótti alltaf gaman þegar Jón
kom að Hóli til foreldra minna. Hann var þá oft nýbúinn að
lesa eitthvað nýtt og sagði svo skemmtilega frá því. Stundum
kom Jón með bók í barmi sínum, sem eg mátti lesa. Hann var
bókbindari ágætur, og fóru margar bækur um hendur hans.
Eg man alltaf, hvað hann brosti fallega, þessi lágtalaði og
hógværi maður, þegar hann var að færa mér eitthvað. Einu sinni
man eg, að hann kom á aðfangadag jóla og færði mér brúnt
umslag nokkuð þykkt. „Þú mátt ekki opna það fyrr en í kvöld,
það er verst hvað þetta er lítið.“ Hann óskaði öllum gleðilegra
jóla, og svo var hann farinn. Eg hafði ekki aðra leikfélaga en
dýrin og kunni því ekki að leika mér eins og önnur börn. Þetta
hefur Jón í Hvammi skilið, hann var víst nærgætinn um margt.
Aðfangadagskvöld var komið. Það var orðið heilagt. Eg
spurði mömmu lágt: „Má eg opna bréfið frá Jóni?“ Mamma
hristi höfuðið. „Ekki fyrr en búið er að lesa húslesturinn. Pabbi
þinn er að koma með bækurnar.“ Eg held, að mér hafi fundizt
lesturinn með lengra móti. Jafnframt vissi eg, að svona mátti
ekki hugsa, allrasízt á sjálfum jólunum. Eg ásetti mér að biðja
guð að fyrirgefa mér bráðlætið um leið og eg læsi kvöldbænina
mína. En umslagið frá honum Jóni var áleitið, og eftirvæntingin
var mikil.
106