Saga - 2009, Page 56
fyrir í umfjöllun um atburði erlendis. Samt má segja að landráð séu
miklu oftar til umræðu en dómar um þau gefa til kynna.
orðið landráð hefur ákveðna merkingu í lögum. Í X. kafla (86.–97.
gr.) almennra hegningarlaga (lög nr. 19/1940) er fjallað um landráð;
þau afbrot að reyna að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir er-
lend yfirráð, láta uppi leynilega samninga eða ráðagerðir ríkisins,
stuðla að njósnum fyrir erlend ríki eða smána og móðga erlend ríki,
æðstu ráðamenn þess eða þjóðfána. Segja má að X. kafli hegningar-
laganna fjalli um afbrot sem varða „ytra öryggi ríkisins“ en í XI. kafla
þeirra er fjallað um „innra öryggi“ þess, þ.e. brot gegn stjórnskipun
ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í þeim orðabókum landsins
sem líklega eru mest notaðar er landráðum lýst á svipaðan veg og í
lögum. Í orðabók Menningarsjóðs eru landráð sögð „föðurlands-
svik, það að svíkja land undir erlend yfirráð“, og í íslenskri orðabók
vefbókasafnsins Snara.is eru landráð sögð „brot gegn öryggi eða
sjálfstæði ríkis út á við eða inn á við, föðurlandssvik“.
Umræður um efnahagshrunið á Íslandi veturinn 2008–2009,
Icesave-deiluna svokölluðu og hugsanlega aðild að evrópusambandinu
gefa aftur á móti til kynna að margir Íslendingar skilgreini hugtakið
landráð mun víðar en gert er í landslögum og orðabókum. Ýmis
dæmi mætti nefna, en hér verður látið nægja að benda á að vefleitarvélin
Google fann orðið „landráð“ 71.200 sinnum frá september 2008 til
jafnlengdar næsta árs, oftar en ekki í sambandi við meinta glæpi „út-
rásarvíkinga“ og stjórnvalda í hruninu.2
Landráðáþjóðveldisöld?
Á dögum þjóðveldisins var ekkert framkvæmdarvald í landinu og
engin stofnun sem gat höfðað mál í krafti almannavalds á hendur
þeim sem töldust hafa brotið lögin; allir urðu að sækja rétt sinn sjálfir
enda álitið að afbrot gætu aðeins beinst að einstaklingum og ætt
þeirra.3 Landslög þau sem kennd eru við Grágás geymdu þess vegna
engin ákvæði sem líkjast seinni lagabókstaf um landráð eða drott-
insvik. „Andlagið“ vantaði; íslenskt ríki eða íslenskan konung. Þegar
leið á þjóðveldisöld tóku íbúar Íslands vissulega að líta á sig sem sér-
staka heild en þeir töldu sig einnig hluta af hinum norræna heimi,
guðni th. jóhannesson56
2 Vef. Leit að orðinu „landráð“ á www.google.is 14. sept. 2009.
3 eiríkur Tómasson, „Var réttarfar á þjóðveldisöld nútímalegt?“ Líndæla. Sigurður
Líndal sjötugur, 2. júlí 2001. Ritstj. Garðar Gíslason o.fl. (Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag 2001), bls. 95–111, hér bls. 98–99.
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 56