Saga - 2009, Qupperneq 134
háum hjólum“. Þessi hópur, sem er mun stærri en hinir þrír til sam-
ans, kemur við sögu hjá ýmsum greinendum hrunsins. Ármann
Þorvaldsson telur upp röð líklegra sökudólga í bók sinni, en bætir
svo við: „Áttu Jón og Gunna ef til vill sinn þátt í þessu mikla hruni af
því að þau höfðu skuldsett sig óhóflega? Sannleikurinn er sá að margir
samverkandi þættir, jafnt innlendir sem erlendir, ollu hruninu. Allir
ofangreindir aðilar verða að taka á sig hluta af ábyrgðinni, þó lík-
lega síst þau Jón og Gunna.“64 Þrátt fyrir þennan varnagla dregur
Ármann upp skýra mynd af neyslusukki venjulegra Íslendinga og
ýmiskonar fjármagnsbraski.65 Af orðum hans má ráða að almenn sátt
hafi ríkt hér á landi um íslensku útrásina og undir það sjónarmið
taka Ásgeir Jónsson og Jón Ólafsson heimspekingur. Ásgeir segir
mikinn meirihluta þjóðarinnar hafa hrifist af útrásarheimspekinni
og Jón Ólafsson segir að „margvísleg gögn góðærisins séu órækur
vitnisburður“ um að á Íslandi hafi ríkt „samfélagssáttmáli um allan
þann hugarburð sem einkenndi góðæristímann. … Fjölmiðlar, ein-
staklingar, fyrirtæki og opinberar stofnanir reyndu að laga sig að
þeim veruleika sem bakland auðæfanna skapaði“.66
Samfélagssáttin sem Jón gerir að umræðuefni birtist í stöðug-
leikanum sem greina mátti í íslenskum stjórnmálum síðustu tvo ára-
tugi. en hún birtist líka í umræðuleysinu sem var ráðandi á Íslandi um
árabil. Í pistli sem ég skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins í kjölfar hruns-
ins lýsi ég því andlega ástandi sem ríkti á Íslandi góðæristímans:
Þjóðin hefur á síðustu vikum hrist af sér doða hugmyndafræðinnar
og líður nú einna helst eins og sértrúarsöfnuði sem rankar við
sér eftir að hafa um árabil lokað sig af frá umheiminum í því
skyni að tigna Guð sinn í friði fyrir öllum þeim sem annars
myndu smána hjálpræðið með spurningum. Í raun hefur andlegt
líf í landinu undanfarin ár einkennst af lamandi sannfæringu,
grjótfastri trú á að sannleikurinn hafi verið höndlaður í eitt skipti
fyrir öll. og á þessum árum var nánast ómögulegt að stíga út
fyrir hinar viðurkenndu markalínur og vera tekinn alvarlega.
… Sá sem gagnrýndi opinberlega vald auðstéttarinnar, eða gildi
guðni elísson134
64 Ármann Þorvaldsson, Ævintýraeyjan, bls. 243.
65 Sjá t.d. Ármann Þorvaldsson, Ævintýraeyjan, bls. 60–64 og 168–69.
66 Ásgeir Jónsson, Why Iceland?, bls. 108–109 og Jón Ólafsson, „Innri þroski, ímynd
og samfélagssáttmáli — Gagnrýni á tímum góðæris og samstöðu“. Greinin,
sem byggð er á erindi sem Jón flutti í Ríkisútvarpinu, Rás 1, í tilefni þjóðhátíðar-
dagsins 17. júní 2009, er væntanleg í 4. hefti Tímarits Máls og menningar 2009.
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 134