Saga - 2009, Síða 189
upphafsstaf á málsgreinaskilum (þetta er samræming sem oft hafði
sést í fornritaútgáfum þótt stafréttar væru að öðru leyti) auk þess
sem greinaskilum og greinarmerkjum mætti breyta þar sem skýrara
þætti.8 Með þessu móti kemst óvanur lesandi mun fyrr upp á lagið
að lesa textann nokkurn veginn fyrirstöðulaust, en vissulega þarf út-
gefandi stundum að skera úr eftir eigin smekk, t.d. þar sem setn-
ingaskipun er tvíræð. Þá var það frá upphafi regla að leiðrétta at-
hugasemdalaust augljós pennaglöp.9 Misritanir eða annað brengl,
sem útgefandi treystir sér ekki til að leiðrétta, stendur einnig at-
hugasemdalaust, enda gengi það þvert á hina hlédrægu útgáfustefnu
að spretta fingrum að heimildinni með glósum á borð við „[svo]“.
einungis er táknað hvar vantar í texta af því að handrit er skert eða
ólæsilegt. Lesandi sem grunar útgefanda um að mislesa handrit
verður bara að sætta sig við óvissuna.10
Þótt verklagsreglur við heimildaútgáfu skipti vissulega máli er
hitt þó meginatriði að rétt og nákvæmlega sé lesið. Um það getur
aðvífandi lesandi með engu móti dæmt, en í hverju bindi er jafnan
tekið fram hver eða hverjir báru texta saman við heimildir auk út-
gefanda og er traustvekjandi að sjá nákvæmniskröfuna þannig tekna
alvarlega.
kröftugasta útgáfustarf … 189
8 Þessari stefnu er fylgt með nokkrum blæbrigðum, t.d. mjög sparlega leiðrétt í
nr. 3, en í nr. 5 (bls. 7) er gert ráð fyrir að samræma að fullu greinaskil og grein-
armerki og að miklu leyti ritun í einu orði og tveimur, jafnframt því að leysa
úr skammstöfunum „þegar brýn ástæða er talin til“. Án þess að því sé lýst sem
reglu er bundnu máli jafnan skipt í ljóðlínur og á einstöku stað álitamál hvernig
að því er farið.
9 Þar er þó oft álitamál hve langt skuli ganga, m.a. hve náið skrifari þarf að fylgja
ritreglu til að frávik frá henni flokkist undir pennaglöp og beri að leiðrétta. Slíkt
hlýtur bæði að vera matsatriði eftir eðli hverrar heimildar og að nokkru marki
smekksatriði útgefanda.
10 Til skýringar vel ég dæmi úr 14. bindinu (sjá um það síðar), bls. 270. Bóndi tekur
saman efnahagsreikning sinn, metur m.a. „trippi á 30.“ á 125 krónur en „trippi
á 20.“ á 100 krónur. Hér sýna hlutföllin að tölurnar 20 og 30 geta ekki átt við
verðeiningar af neinu tagi, líklegra að þær tengist aldri trippanna en þá verður
textinn að vera á einhvern hátt brenglaður. Þessu hlýtur útgefandi að hafa tekið
eftir, vonandi líka fengið um það ábendingu frá yfirlesara eða prófarkalesara, og
fullvissað sig um að rétt sé lesið. Samkvæmt íhlutunarsamri útgáfustefnu ætti
að kvitta fyrir samanburðinn með „[svo]“, jafnvel benda á mögulega leiðréttingu:
„trippi á 30. [= á þriðja v(etur)?]“. en samkvæmt hlédrægu útgáfustefnunni
verður þetta bara að standa athugasemdalaust, lesanda til umhugsunar ef hann
kærir sig um.
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 189