Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Page 2
2 TMM 2010 · 4
Frá ritstjóra
„Innan sálgreiningar er litið á geðveiki sem eina af þremur tegundum
geðtruflunar, en hinar eru hugsýki og lastahneigð …“ Svo segir í afar
athyglisverðri grein Hauks Más Helgasonar, Að vera eyland. Hann talar
hér um íslensku þjóðina. Og hann er ekki að nota geðveiki, sálgreiningu,
geðtruflanir, geðklofa, „hugkleyfa tilveru“ og ámóta hugtök í yfirfærðri
merkingu eða til að varpa ljósi á fáránleikann í framgöngu manna hér á
landi á umliðnum árum: þetta er bókstaflega meint. Haukur Már beitir
hugtökum sálgreiningar af mikilli hugkvæmni og dirfsku í þessari grein
til að grafast fyrir um djúprætt sálarástand í íslensku þjóðlífi og ýmsar
birtingarmyndir þess – sem hann rekur raunar til kristnitökunnar árið
1000 þegar, eins og hann segir „rof milli táknmyndar og táknmiðs [var]
fært inn í stjórnlög.“
Þjóðarsálfræði af svolítið öðru tagi er á ferðinni í fyrirlestri sem Pétur
Gunnarsson flutti í haust og var kenndur við Sigurð Nordal á fæðingar
degi hans. Þar fer þessi meistari esseyjuformsins um víðan völl: gagn
rýnir, skemmtir, tengir óvænt, opnar.
Ásgeir Friðgeirsson var á sínum tíma innanbúðarmaður í fjármála
lífinu hér á landi, meðal annars ráðgjafi og talsmaður eigenda Lands
bankans. En áður en hann tók að sinna þeim störfum starfaði Ásgeir
sem blaðamaður og ritstjóri og sú reynsla kemur honum að góðum
notum þegar hann skrifar ákaflega greinargott yfirlit um það sem aflaga
fór í hruninu – sem var nokkurn veginn allt – og þá umræðu sem farið
hefur fram síðan.
Guðni Elísson beinir hins vegar sjónum að sjálfum fræðilegum grunni
góðærisins, þeirri hugmyndafræði sem hann kallar „boðunar frjáls
hyggju“. Hann leggur til grundvallar nýlegt greinasafn um nýfrjálshyggj
una, Eilífðarvélina, og spyr hvassra spurninga um tilkall hagfræð innar
til að teljast vísindi.
Ástæða er líka til að gaumgæfa málsvörn Gunnars Karlssonar fyrrum
prófessors fyrir lýðræðinu. Og er þá fátt eitt talið af efni tímaritsins að
þessu sinni: Heimir Pálsson skrifar af fræðilegu fjöri um Gunnlaðar
sögu og eddufræði og Jón Yngvi Jóhannsson gaumgæfir bækur síðasta
árs af þeirri yfirsýn sem hann hefur smám saman öðlast. Dómar eru líka
á sínum stað, ljóð og sögur.
Guðmundur Andri Thorsson