Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Page 16
P é t u r G u n n a r s s o n
16 TMM 2010 · 4
örlög hans og Árna Magnússonar sem engum blandast hugur um að
hafi verið afburðamaður, né hve sárgrætileg örlög hans urðu. Sigurður
aftur á móti kemst til verðskuldaðra áhrifa í íslensku fræðasamfélagi, er
þátttakandi í fullnaðarsigri Íslendinga í sjálfstæðismálum þjóðarinnar
sem og handritamálinu. Situr sem heiðurssendiherra þjóðarinnar
í Kaupmannahöfn á fyrstu árum lýðveldisins. Er gerandi og þátt
takandi þess að íslenskur höfundur hlýtur æðstu viðurkenningu á
bókmenntasviðinu. Óumdeildur og óskoraður öldungur að ævilokum
árið 1974, árið sem Íslendingar héldu upp á 1100 ára búsetu þjóðarinnar
í landinu. Og vonandi að svarið við spurningunni hvort Íslendingar
væru ógæfuþjóð og ógæfa að vera fæddur á meðal þeirra hafi þá legið í
augum uppi.
Undir lok ræðu sinnar segir Sigurður og læt ég það jafnframt vera
lokaorð mín:
„Hvert býli, hver uppblásinn og vanræktur blettur biður um betri
aðhlynningu eftir þúsund ára arðrán. Jafnvel sjórinn biður um vernd og
ræktun, ef hann á að halda áfram að vera bjargargjafi og auðsuppspretta.
… Hvert barn, sem fæðist og oss er falið til forsjár, biður um tækifæri
til þess að þroskast samkvæmt hæfileikum sínum og fá að neyta krafta
sinna í réttlátu og samstilltu þjóðfélagi, þar sem enginn smælingi er
fyrir borð borinn, hver óbreyttur liðsmaður gerir skyldu sína eftir bestu
vitund og hver sá, sem þykist kallaður eða kvaddur er til forystu telur
það eitt frama sinn og gæfu að vinna Íslandi því dyggilegar sem honum
er meira veitt…“.12
Fyrirlestur fluttur á fæðingardegi Sigurðar Nordal, 14. september 2010, í Nor
ræna húsinu.
Tilvísanir
1 Jón Karl Helgason, Mynd af Ragnari í Smára, Bjartur MMIX.
2 Völuspá, Sigurður Nordal gaf út, Helgafell 1952, önnur prentun, bls. 183.
3 Sigurður Nordal, Íslensk menning, Mál og menning 1942, bls. 22–23.
4 Miroslav Holub, Þankabrot leirdúfukarrans, í þýðingu Þorgeirs Þorgeirsonar, Leshús 1988.
5 Sigurður Nordal, Samhengi og samtíð III, bls. 200.
6 Roland Barthes, Leçon, Éditions du Seuil, 1978, bls. 14.
7 Sigurður Gylfi Magnússon, Lífshættir í Reykjavík, 1930–1940, bls. 123–141.
8 Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls. 308.
9 Sigurður Guðmundsson, Dýrin í Saigon, Mál og menning, 2010.
10 Sigurður Nordal, Samhengi og samtíð III, bls. 259.
11 Hallbjörn Halldórsson, Hugvekjur Hallbjarnar Halldórssonar, Hið íslenska prentarafélag, bls.
95–97.
12 Sigurður Nordal, Samhengi og samtíð III, bls. 349.