Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 23
Þ e g a r v i s s a n e i n e r e f t i r …
TMM 2010 · 4 23
breytingar „eru afar mikils metnar“, en hugmyndin „um hagvöxt er
hornsteinninn að efnahagsstarfseminni“.35
Þessar tvær „hússtjórnaraðferðir“ eiga illa saman og það ætti að
vera siðferðileg skylda allra hagfræðinga að setja fram kenningar sem
laga hagkerfið að skilyrðum vistkerfisins. Slíkt gerist þó ekki á meðan
trúfræðilegu sjónarmiðin eru ráðandi í háskólakennslu á sviðinu.
Bandarísku vísindamennirnir Paul R. og Anne H. Ehrlich rekja nokkur
forvitnileg dæmi um vanmátt hagfræðinga til þess að skilja hugmyndina
um veldisvöxt í grein um fólksfjölgunarvandann og álagið á vistkerfið,36
en dæmin staðfesta glögglega þá trúfræðilegu blindu sem stýrir alltof
oft hagvaxtarhugmyndum hagfræðinga og veruleikafirringunni sem
mótar þær.
Aðeins sérfræðingar geta greint smávægilega galla í flóknum kerfum,
hvort sem kerfin eru hugmyndafræðileg eða af vélrænum toga. En litla
þekkingu þarf til þess að hafna kerfum sem í grunninn eru ónothæf
og geta valdið varanlegum skaða. Kennisetningin um hinn endalausa
vöxt er sérstaklega skaðleg og illsamræmanleg veruleikanum. Þá er
það nánast óskiljanlegt að sá auður sem verður til við stöðuga rýrnun
náttúruauðlinda sé talinn þjóðfélögum til tekna, t.d. í formi landsfram
leiðslu eða neyslustigs. Sú skilgreining á auðsöfnun er jafn skynsamleg
og að segja einstakling auðgast á því að ganga markvisst á sparifé sitt.37
Hvað er hægt að segja um kenningakerfi sem byggist á afáti, sem getur
af sér gríðarlega hagsæld í nokkra áratugi, en stofnar sjálfu lífríkinu í
hættu, kerfinu sem framtíðartilvist mannsins byggist á?
Hagvaxtarkenningin er mótuð af rökvísi krabbameinsfrumunnar. Og
hún leiðir að sömu niðurstöðu.
Tilvísanir
1 Þessi grein er liður í rannsóknarverkefninu Eftir hrunið á vegum Eddu – öndvegisseturs.
2 Sjá Kolbein Stefánsson: „Sjálfsgengissamfélagið: Leitin að hinu algilda lögmáli“, Eilífðarvélin.
Uppgjör við nýfrjálshyggjuna, ritstj. Kolbeinn Stefánsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2010, bls.
11.
3 Sama, bls. 12.
4 Sjá Francis Fukuyama: The End of History and the Last Man. New York: Avon Books 1992, bls.
xi (Fukuyama kallar frjálslynda lýðræðið „the final form of human government“). Bókin er
byggð á fyrirlestrinum „The End of History?“ sem birtist í The National Interest 16 (sumarið
1989), bls. 3–18. Marxískar hugmyndir af sama toga má finna í lykilverki Georgs Lukács Saga
og stéttavitund sem fyrst kom út á þýsku 1923.
5 Kolbeinn Stefánsson: „Rauðir þræðir: Samantekt og niðurstöður“, Eilífðarvélin, bls. 263.
6 Sama.
7 Kolbeinn Stefánsson: „Sjálfsgengissamfélagið: Leitin að hinu algilda lögmáli“, bls. 9–10, 11 og