Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Síða 73
A l l t a f s a m a s a g a n ?
TMM 2010 · 4 73
salabók; Konungsbók og Ormsbók: Þjazi] sá flug arnarins, tók hann sér arnarham
og flaug eftir honum. En er Æsir sáu hvar Óðinn flaug, þá settu þeir út í garðinn
ker sín. En er Óðinn kom inn of Ásgarð, þá spýtti hann upp miðinum í kerin, en
honum var þá svo nær komið að Suttungur myndi ná honum að hann sendi aftr
suman mjöðinn, og var þess ekki gætt. Hafði það hver er vildi, og köllum vér það
skáldfífla hlut. En Suttunga mjöð gaf Óðinn ásunum og þeim mönnum er yrkja
kunnu. Því köllum vér skáldskapinn feng Óðins og fund og drykk hans og gjöf
hans og drykk ásanna.
(Samræming að mestu eins og í útgáfu minni 2003, bls. 90–92;
hliðsjón höfð af útgáfu Anthonys Faulkes 1998, bls. 4–5.)
En í UppsalaEddu kveður við annan tón:
Ægir spyr: Hversu komst Óðinn að miðinum?
Bragi segir: Hann fór þar sem voru níu þrælar og slógu hey. Hann bauð að
brýna ljá þeirra. Hann tók hein úr pússi sínum og gáfu þeir við höfuð sín. Síðan
brá hver ljánum á háls öðrum.
Þá kom Óðinn til Bauga og nefndisk Bölverkur. Baugi lést eigi hafa vel haldið
húskörlum sínum. Hann bauð að taka upp einn verk þeirra níu og hafa til einn
drykk af Suttungamiði.
Hann lést ráð eiga á miðinum, en Suttungr vill einn hafa.
Bölverkur vann um sumarit níu manna verk, en að vetri vill hann kaupið. Fara
þá til Suttungs og beiða hann mjaðarins. Hann synjar.
Þeir fóru og tekur Bölverkur nafarinn Roða og borar Hnitbjörg meður, og þá
brást hann í orms líki og skreið nafarsraufina og hvíldi hjá Gunnlöðu þrjár nætr
og drakk þrjá drykki af miðinum, og var hann þá uppi allur, sitt [sinni] úr hverju
kerinu.
Hann brást þá í arnarham og flaug, en Suttungur í annan arnarham og flaug
eftir honum. Æsir settu út í garðinn ker sín. Óðinn spýtti miðinum í kerin,
en sumum repti hann aftur, er honum varð nær farið, og hafa þat skáldfífl og
heitir arnarleir. En Suttungamjöður þeir er yrkja kunna. Því heitir skáldskapurinn
fengur Óðins og fundur og drykkur og gjöf.
(Samræming mín eftir útgáfu Grapes o.fl. 1977, bls. 37.)
Hér ber býsna mikið á milli og stingur í augu að Uppsalagerð sögunnar
um Suttungamjöðinn er heldur illa skapað hugarfóstur. Hún er sköllótt
og óskipuleg, einkum í samanburði við Konungsbókargerðina, sem er
eiginlega eins vel sögð og hægt er að krefjast. Í Uppsalagerð verða sumar
málsgreinar nánast óskiljanlegar. Verður að segjast eins og er að mér
þykir miklu líklegra að Uppsalasögnin sé upprunalegri að því leyti að
hún endurspegli söguna eins og höfundur hafi fyrst heyrt hana sagða,
nánast sem minnispunkta eða brot, en síðan hafi annaðhvort hann eða
einhver sem kunni betri gerð endurbætt hana. Þá er skipt um nafn á