Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Side 89
L e s i ð í s k u g g a h r u n s i n s
TMM 2010 · 4 89
út á síðasta ári taka sér allar meira og minna stöðu með konum sem
minna mega sín í sögunni. Bjarni Harðarson fjalla um formæður sínar
og ættingja í Nú skal dansa, konur sem eiga það sameiginlegt að vera
leiksoppar misjafnra karla og samfélags sem tekur sjaldnast tillit til óska
þeirra eða drauma.
Það er kannski skilgreiningaratriði hvort skáldsaga Hlínar Agnars
dóttur, Blómin frá Maó telst sögulega skáldsaga þar sem hún teygir sig
inn í nútímann og byggir að einhverju leyti á minningum höfundar
sjálfs um tíma róttækni og maóisma á áttunda áratugnum. En hún
hefur það einkenni sögulegrar skáldsögu að hún ætlar sér að varpa ljósi
á hugarfar tímabils og tekst það mjög vel. Saga norðanstúlkunnar sem
lendir í slagtogi við maóistaklíku þegar hún kemur til Reykjavíkur til að
læra félagsráðgjöf er ísmeygileg og skörp. Hún dregur upp sannfærandi
mynd af tímabili sem hefur hlotið nokkuð misjöfn eftirmæli. Sagan
er vissulega gagnrýnin, ekki síst á karlrembuna sem virðist hafa verið
innbyggð í byltingarsinnaðar sellur og smáflokka á tímabilinu, en þessi
gagnrýni er beiskjulaus og yfir allri frásögninni er kankvís hlýja.
Síðasta sögulega skáldsagan sem hér verður nefnd dregur einnig
athyglina að konu, einni hinna ósýnilegu kvenna sögunnar. Þegar
kóngur kom eftir Helga Ingólfsson státar af fjölbreyttu persónugalleríi,
en meðal þeirra eftirminnilegri, og sú sem kemur atburðarásinni af stað
er forsmáða alþýðustúlkan Sigríður.
Fyrir þá sem, eins og undirritaður, hafa gaman af sögulegum
búninga drömum er Þegar kóngur kom hin besta skemmtun. Sérstaklega
framan af, meðan dregin er upp mynd af Reykjavík og Reykvíkingum
nítjándu aldar. Hér eru ýmsir gamlir kunningjar úr söguritum og
ævisögum undanfarinna ára og áratuga, meðal eftirminnilegra persóna
er svolítið sjálfumglaður og hégómlegur Matthías Jochumsson. Jónassen
landlæknir, önnur aðalpersóna sögunnar er sömuleiðis skemmtilega
samsettur, strangvísindalegur í aðra röndina og vel menntaður á sinna
tíma vísu, en jafnframt trúgjarn og tilbúinn að leggja trú á alls konar
hindurvitni. Þegar kóngur kom er líka glæpasaga af því tagi sem ekki
hefur farið mikið fyrir í því flóði glæpasagna sem dunið hefur yfir
íslenska lesendur síðasta áratug. Sögulegar glæpasögur eru velþekktar
úti í heimi, Róm til forna og evrópskar miðaldir eiga þar sína fulltrúa og
nú hefur nítjánda öldin á Íslandi bæst við.