Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Side 99
TMM 2010 · 4 99
Á d r e p a
Gunnar Karlsson
Til varnar lýðræðinu
Á fundi í Háskólabíó 24. nóvember 2008 var baulað á Ingibjörgu Sólrúnu
Gísladóttur þegar hún lét í ljós efa um að hávær hópur fundargesta, sem voru
sagðir um hálft annað þúsund samtals, gæti talað í nafni þjóðarinnar.1 Stuttu
síðar barst þetta í tal á milli mín og kunningja míns, og ég sagði eitthvað á þá
leið að þetta væri auðvitað alveg rétt hjá henni, þessi hópur hefði ekki farið með
neitt umboð fyrir þjóðina. Hann viðurkenndi að það væri rétt en sagði um leið
að samt hefði verið óráðlegt af Ingibjörgu Sólrúnu að segja það á þessum stað
og stundu. Með því hafði þessi grandvari kunningi minn gengist undir það að
háværum hópum fólks ætti að líðast að tala í nafni þjóðarinnar aðeins ef þeir
bæru eitthvert málefni svo mikið fyrir brjósti að þeir nenntu að hreyfa sig út
úr húsi vegna þess.
Við höfum nú orðið vitni að svipaðri afstöðu til háværra mótmæla haustið
2010. Hópur fólks, sem fjölmiðlar sögðu fyrst vera fjögur þúsund, síðan sex,
átta og jafnvel tíu þúsund, kom saman á Austurvelli og lét bylja hátt í tómum
tunnum meðan forsætisráðherra flutti stefnuræðu á Alþingi, og fjölmiðlar
kölluðu hópinn þjóðina. „Þjóðin er reið“ var heiti á útvarpsþætti sem átti,
skildist mér, að fjalla um mótmæli hans. En, jafnvel þótt við gerum ráð fyrir að
þarna hafi tíu þúsund reykvískir kjósendur verið á Austurvelli og sýnt reiði
sína, þá voru meira en átta sinnum fleiri kjósendur borgarinnar ekki þar og
sýndu enga reiði.
Það er fjarri mér að gera lítið úr gremju þess fólks sem baulaði á fundinum í
Háskólabíó fyrir tveimur árum eða barði tunnur á Austurvelli nú í haust.
Margt af því hefur orðið fyrir grimmum fjárhagslegum blekkingum; öðrum
hlýtur að sárna sú niðurlæging sem samfélag okkar allra hefur mátt þola fyrir
mistök stjórnmálamanna og ósvífni fjárglæframanna. Það er von að fólki renni
í skap. En fólkið sem rennur svo í skap að það mótmæli á almannafæri er samt
ekki þjóðin. Áður fyrr á árum var ég oft í hópi þúsunda sem komu saman í
miðbæ Reykjavíkur í lok Keflavíkurgangna og krafðist brottfarar bandaríska
hersins. Við vorum sannfærð um málstað okkar (sem síðar hefur reynst að
minnsta kosti eins sannur og við héldum), en við vissum að við vorum ekki
þjóðin, hvað þá að við værum kölluð það í Ríkisútvarpinu eða Morgunblaðinu.
Hversu góður sem málstaður háværra minnihlutahópa kann að vera ber það í
sér örörörlítið kím fasisma þegar þeir fara að komast upp með að láta kalla sig
þjóðina.