Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Page 107
TMM 2010 · 4 107
D ó m a r u m b æ k u r
Úlfar Bragason
Snorri veginn
Óskar Guðmundsson: Snorri, ævisaga Snorra Sturlusonar 1179–1241. JPVútgáfa,
2009.
Til er á erlendu máli orð sem heitir souverain, súveren, – franskt upphaflega. Þetta
orð er haft um keisara og páfa, en ekki vanalega konúnga. Maður sem lýst er með
þessu orði, hefur vald til að segja hverjum sem er fyrir verkum, einnig konúngum;
en tekur ekki við skipun frá neinum. Einginn nema maður af þessari gráðu skrifar
bók einsog Ólafs sögu ens helga [Snorri – átta alda minning (1979): 22].
Svo komst Halldór Laxness að orði í ræðu sem hann hélt á Snorrahátíð í
hátíðarsal Háskóla Íslands 22. júní 1979 þegar þess var minnst að átta aldir
voru liðnar frá fæðingu Snorra Sturlusonar. Það vald og sú helgi sem gefin var
Ólafi Noregskonungi í Heimskringlu er í orðum Laxness yfirfærð á Snorra
sjálfan – sem menn hafa komið sér saman um að sé höfundur verksins.
Ævisaga Óskars Guðmundssonar um Snorra er mikið rit, 528 bls. þegar með
eru taldar allar skrár: tilvísanir, heimildir og mynda og nafnaskrár sem eru
upp á tæpar 70 síður. Að vísu er letur stórt og í megintexta er talsvert af
myndum til skýringa og skrauts. Jafnframt er þar mikið um ættrakningar til
skýringa. Í formála gerir höfundur nokkra grein fyrir verki sínu. Þar segir
m.a.:
Ævi Snorra er spennandi af mörgum ástæðum. Enginn annar miðaldamaður er
talinn hafa tekið saman jafn mikið efni úr heimi bókmennta, sagnfræði og menn
ingararfs. Enginn norrænn maður kemst nálægt honum að víðfeðmi – og enginn
samtímamaður hans hefur skilað eftirkomendum eftir jafn gildum sjóði til varð
veislu og úrvinnslu [9].
Óskar getur þess einnig með réttu að enginn hafi skrifað svo mikið rit um ævi
Snorra Sturlusonar og hann þótt margir hafi skrifað æviágrip hans. Enda
bendir hann á að heimildir séu takmarkaðar. En hann ætlar sér ekki síður eða
jafnvel frekar að skrifa um stjórnmálamanninn Snorra, sem hann telur að hafi
sett mikinn svip á þrettándu öldina, en bókmenntamanninn. Óskar dregur
heldur ekki fjöður yfir að verk hans byggist á gömlum og nýjum rannsóknum
á Sturlungaöld, ævi Snorra og verkum. Enda bera tilvísanir til heimilda og
mikil heimildaskrá bókarinnar vitni um að víða er leitað fanga. Ég saknaði þar
þó þegar tveggja ágætra og yfirlitsgóðra rita: Snorri Sturluson eftir Marlene