Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Page 24
L e i f u r R e y n i s s o n
24 TMM 2018 · 4
átti hann eftir að vera mjög áberandi þá daga sem senn fóru í hönd. Hann
var eldheitur baráttumaður sem kunni vel að koma fyrir sig orði. Og hann
var allsendis óhræddur við að storka valdinu. Hópurinn stóð fyrir ögrandi
aðgerðum innan háskólans sem urðu til þess að skólayfirvöld lokuðu háskóla-
deildinni um óákveðinn tíma og kölluðu forsprakkana fyrir aganefnd.
Daginn eftir, föstudaginn 3. maí, fóru nokkur hundruð stúdentar frá Nant-
erre inn í aðalport Sorbonne-háskóla þar sem þeir mótmæltu lokuninni, sem
og því ráðslagi skólayfirvalda að kalla nokkra róttæklinga fyrir agadómstól
Parísarháskóla.
Rektor tók nú þá fáheyrðu ákvörðun að fá lögregluna til að ryðja portið
en stúdentar litu á það sem valdníðslu þar sem löng hefð var fyrir því innan
háskólans að leysa ágreiningsefni án þess að kalla hana til. Reiði stúdenta
jókst enn þegar lögreglan lét sér ekki nægja að rýma portið heldur handtók
hún flesta sem þar voru. Þeir tóku að streyma í Sorbonne þar sem hróp voru
gerð að lögreglunni og þess krafist að hún leysti félaga þeirra úr haldi. Þeim
var svarað með kylfuhöggum og táragasi en þær aðgerðir efldu baráttuvilja
stúdenta sem köstuðu götusteinum á móti. Átökin 3. maí mörkuðu upphaf
mótmæla og götuóeirða sem áttu eftir að hafa víðtæk áhrif um allt Frakkland.
Öflugur lögregluvörður gætti Sorbonne-háskóla en rektor hafði ákveðið að
loka honum um óákveðinn tíma. Fjölmiðlar fjölluðu mikið um atburðina og
fordæmdu flestir aðgerðir stúdenta. Var því jafnan haldið fram að um hóp
öfgamanna væri að ræða. Greinilegt var að framganga stúdenta kom flestum
á óvart. Þeir voru furðu samtaka og hétu því að halda baráttunni áfram þar
til látið yrði að kröfum þeirra en þær voru: að Sorbonne yrði opnaður á ný,
að lögreglan færi úr Latínuhverfinu þar sem háskólinn var til húsa og að þeir
stúdentar sem handteknir höfðu verið yrðu leystir úr haldi.
Kröfunum var haldið á lofti á útifundum og í mótmælagöngum sem urðu
sífellt fjölmennari og var ljóst að stúdentar ætluðu ekki að gefast upp fyrr en í
fulla hnefana. Nýtt málgagn stúdenta, Action, sem og margvísleg flugrit, fóru
á milli manna en þau höfðu það hlutverk að koma upplýsingum á framfæri
og efla baráttuandann. Kröfurnar urðu smám saman víðtækari og báru vott
um samkennd með þeim sem töldust til lægri stétta samfélagsins. Þær raddir
voru háværar að kapítalisminn væri ein helsta rót vandans og því dygði ekk-
ert minna en bylting. Að fundum loknum marséruðu stúdentar með kröfu-
spjöld á lofti, veifuðu rauðum og svörtum fánum og hrópuðu slagorð á borð
við „valdið er á götunum“, „borgarana í fátækrahverfin“ og „Sorbonne handa
verkamannasonum“.
Stúdentar voru vel skipulagðir og þeir sýndu hugkvæmni í baráttu sinni.
Almenningsálitið var tekið að snúast þeim í vil, enda vakti harkaleg fram-
ganga lögreglunnar hneykslun margra. Stúdentar víða um Frakkland létu
til sín taka og héldu samstöðufundi og fóru í kröfugöngur. Hópur mennta-
manna undir forystu heimspekingsins Jean-Paul Sartre lýsti yfir stuðningi
við stúdenta og baráttugleði þeirra vakti athygli meðal ungra verkamanna.
TMM_4_2018.indd 24 6.11.2018 10:22