Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Page 36
Þ o r va l d u r S i g u r b j ö r n H e l g a s o n
36 TMM 2018 · 4
og fengið þau svör að þetta væri málefni fyrir barnaverndarnefnd. Ég
heyrði pabba slá inn númerið á símanum sínum og stuttu seinna hóf
hann að útskýra aðstæðurnar fyrir manneskjunni á hinum endanum.
Pabbi lýsti því hvernig Úlfhildur hefði birst á heimili okkar á aðfanga-
dagskvöld en minntist ekkert á mig í því samhengi. Hann jánkaði marg-
oft og skaut inn athugasemdum um útlit og klæðaburð Úlfhildar og hið
óskiljanlega tungumál hennar. Þegar hann hafði lagt á beindi hann aftur
orðum sínum til mömmu og ég fann hvernig stór hnútur myndaðist í
maga mínum: „Þau koma eftir hálftíma að sækja hana.“
Ég spratt út úr skápnum og skimaði í örvæntingu eftir Úlfhildi. Ég sá
úfinn, rauðan kollinn hennar nálgast upp stigann, hljóp á móti henni,
greip um hönd hennar og leiddi niður á neðri hæð hússins. Úlfhildur
var hissa á svip en fylgdi mér eftir án þess að streitast á móti. Á pers-
neska teppinu fyrir neðan stigann láguð þið Erla og lékuð ykkur með
Duplo kubba. Erla kallaði upp yfir sig þegar hún sá Úlfhildi: „Úlla!“ Ég
reyndi að sussa á hana en það var of seint. Frá efri hæðinni heyrði ég
pabba kalla á mig. Hann sagðist þurfa að tala við mig en ég vissi betur.
Ég stökk inn í þvottahús með Úlfhildi í eftirdragi og opnaði bakdyra-
hurðina sem lá út í garð. Við höfðum hvorki tíma til að klæða okkur í
skó né útiföt og sokkarnir mínir urðu votir þegar ég hljóp yfir hrímað
grasið. Við smeygðum okkur inn í garðskýlið og lögðumst á kalt hellu-
gólfið með bökin upp við klappstóla úr plasti. Andardráttur okkar varð
að gufu sem í dimmunni minnti mig á reykinn úr rafrettunni hennar
mömmu. Úlfhildur sagði eitthvað við mig en ég sussaði á hana. Fyrir
utan kölluðu pabbi og mamma á okkur. Við Úlfhildur hjúfruðum okkur
upp að hvort öðru og reyndum að hlusta ekki á raddirnar sem nálguð-
ust. Ég var farinn að skjálfa en kuldinn virtist ekki hafa nein áhrif á Úlf-
hildi, frá henni stafaði hlýju og þegar hún tók utan um mig fann ég að
mér hætti að vera kalt. Skyndilega var hurðinni á garðskýlinu hrundið
upp og pabbi kom æðandi inn til okkar. Hann tók í Úlfhildi og rykkti
henni frá mér. Hún streittist á móti en pabbi var sterkari og dró hana
út úr skýlinu. Ég hljóp á eftir þeim, öskraði á hann að hætta og reyndi
að toga Úlfhildi til baka en mamma kom og greip utan um mig. Hún
hvíslaði til mín og reyndi að róa mig niður en ég hélt bara áfram að
öskra. Pabbi fór með Úlfhildi aftur inn en mamma varð eftir með mér
í garðinum þangað til ég róaðist. Hún útskýrði fyrir mér stöðuna, sagði
að það væri manneskja frá barnavernd á leiðinni til okkar. Það þyrfti að
fara yfir mál Úlfhildar og hjálpa henni að komast aftur til foreldra sinna.
Ég var hættur að öskra, tárin láku niður kinnarnar og lentu á stéttinni
ásamt nokkrum fölum snjókornum.
TMM_4_2018.indd 36 6.11.2018 10:22