Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Page 39
S u n n a n v i n d u r
TMM 2018 · 4 39
hlýja öxl hennar. Mamma og pabbi hafa eflaust borið okkur inn í her-
bergi skömmu síðar því morguninn eftir vaknaði ég í mínu eigin rúmi
íklæddur náttfötum.
Það fyrsta sem ég tók eftir var að Úlfhildur var ekki í herberginu.
Ég þræddi dimmt húsið í leit að henni en fann hana hvergi. Að lokum
opnaði ég útidyrnar og við mér blasti sjón sem ég hafði fram til þessa
aðeins séð í bíómyndum. Stéttin og gatan voru þakin þykku lagi af
nýföllnum snjó sem lá yfir öllu rétt eins og skýin hefðu ákveðið að fá
sér blund í götunni okkar. Snjórinn var óhreyfður fyrir utan par af fót-
sporum sem lágu frá útidyrahurðinni í átt að garðinum. Ég klæddi mig
í skó og úlpu, fór út og fylgdi sporunum. Þau lágu í gegnum garðinn,
yfir runnana og hraðbrautina í átt að fjörunni. Það birti til eftir því sem
ég nálgaðist sjóinn og ég tók eftir því að í kringum mig var fjöldi fólks
á leiðinni í sömu átt og ég. Risastór maður, grár á hörund með brotið
og hrjúft andlit eins og grjót, gekk fram hjá mér og á eftir honum fylgdi
hópur stórbeinóttra og ófrýnilegra barna. Við hlið mér gengu nokkrar
hávaxnar og ljóshærðar konur, íklæddar kyrtlum sem voru svo hvítir að
frá þeim virtist stafa einhvers konar yfirnáttúrulegri birtu. Öll virtust
þau vera á leiðinni niður að fjöru en ekkert þeirra virti mig viðlits. Þegar
ég var kominn að klettunum sá ég hvert þau stefndu. Í flæðarmálinu lá
stærðarinnar seglskip. Skipsskrokkurinn var úr dökkum viði og framan
á skipinu tróndi rautt drekahöfuð með gapandi gin. Fólkið streymdi í
skipið og í þvögunni sem hafði myndast fyrir framan það sá ég glitta
í rauðan og úfinn koll sem ég kannaðist við. Ég kallaði nafnið hennar
og hún sneri sér við. Hún brosti og veifaði til mín og ég var við það að
taka á rás eftir henni þegar ég fann að eitthvað hélt aftur af mér. Stór og
fúlskeggjaður maður, klæddur loðfeldi og vopnaður stærðarinnar spjóti
ýtti Úlfhildi á undan sér og hún hvarf inn í þvöguna. Mig langaði að
hlaupa á eftir henni en ég fann að ef ég myndi gera það yrði ekki aftur
snúið. Fólkið hélt áfram að streyma í skipið og þegar allir voru komnir
um borð lagði það úr höfn og sigldi hægt út víkina. Mér fannst ég sjá litla
hönd veifa mér frá borðstokknum en það gæti hafa verið ímyndun. Ég
sat á klettunum og horfði á skipið fjarlægjast þar til það varð að örlitlum
bletti á sjóndeildarhringnum.
Þegar ég kom aftur heim voru pabbi og mamma ennþá sofandi. Ég leit
á klukkuna og sá að hún var ekki orðin átta. Ég fór inn í herbergið mitt
og sá að það lá eitthvað á dýnunni sem Úlfhildur hafði sofið á. Ég beygði
mig niður og tók upp hlutinn. Þetta var krossinn hennar Úlfhildar. Ég
lagðist í rúmið og handlék hann. Hann var með fjórum jafnlöngum
örmum og ferningi í miðjunni, haganlega vafinn úr löngum sprekum.
TMM_4_2018.indd 39 6.11.2018 10:22