Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Síða 58
H a l l a Þ ó r l a u g Ó s k a r s d ó t t i r
58 TMM 2018 · 4
og ég mildaðist allur. Þeir komu að spila í Helsinki, þar sem ég átti heima,
og ég skipti við þá á bókum og miðum á tónleikana – þar sem þeir sýndu
líka bíómyndina Heima – þeir buðu mér í eftirpartí og ég varð allur meyr
og fór að sjá eftir hörkunni. Frábærir strákar, meina vel, og ekki fer ég að
neita því að tónlistin hreyfi við manni? Að þeir kunni þetta og geri það vel?
Mánuði síðar hitti ég vininn og spurði hann hvort hann hefði séð Heima og
hann fór allur í hnút, viðurkenndi að þetta hefði nú farið yfir strikið, þjóð-
rembingurinn væri orðinn alltof mikill, og við enduðum í sama rifrildinu
og áður nema búnir að skiptast á skotgröfum, ég í hans og hann í mínum.
Og höfðum báðir sitthvað til okkar máls. Ég held að fólk skipti miklu oftar
um skoðun en maður ímyndar sér – og maður sjálfur – það gerist bara ekki
í augnablikinu. Og það gerist ekki heldur átakalaust.
Samfélagssamræðan er ekki og má ekki vera fasti og við verðum að geta
leyft okkur að rífa svolítið kjaft, brýna svolítið raustina og jafnvel æpa þjóð-
sönginn hvert á annað, blindfull og bláedrú. Það er kannski ekki málefnalegt
en það er mannlegt og gleðilegt og við megum alveg við því. Góð átök eiga að
geta verið einsog að dansa við einhvern – dansinum geta fylgt ýtingar, tramp
á tám, taktleysi, gredda, andfýla, ást, bjórstokkin gólf, reykfyllt rými og allt
þar á milli. Og stundum strunsar maður út af dansgólfinu, alveg kominn
með nóg af þessu rugli. En ef maður gleymir því að manni finnst gaman að
dansa – að það er hreinlega lífinu mikilvægt – hefur maður misst ansi mikið.
Hverju viltu ná fram með þessu verki? Eða hvað vill Hans Blær?
Maður á ábyggilega ekki að viðurkenna það en ég hef ekki hugmynd um
hverju ég vil ná fram með þessu verki – frekar en Hans Blær veit hvað hán
ætlast fyrir með hegðun sinni. Þetta er allt einhvers konar ferðalag eða rann-
sókn. Ef ég vissi hverju ég vildi ná fram með einhverri vissu væri ég sennilega
aktífisti eða sjálfshjálparbókarhöfundur eða eitthvað álíka – eftir atvikum.
Skáldskapur er aðferð til þess að hugsa sem krefst þess ekki að maður komist
að neinni niðurstöðu – troll er svo aðferð til þess að hugsa sem minnst og
komast ekki að neinni niðurstöðu.
Ég geri raunar þá einu kröfu á skáldskap, sem lesandi, að hann mati mig
ekki á niðurstöðu eða einhlítum svörum. Ég vil að sýn mín á heiminn sé
stærri og flóknari þegar ég legg frá mér bók en áður en ég tók hana upp.
Margbrotnari. Og kannski vil ég líka finna fyrir þeirri tilfinningu að það
sé alltílagi. Að það sé alltílagi að heimurinn sé flókinn og stór og það séu
engin einhlít svör heldur verði maður bara að halda áfram að pota sig áfram
í myrkrinu, misstíga sig, meiða sig og aðra og lifa í limbói.
Mér finnst bókin að miklu leyti fjalla um vald. Valdið, sem oft er talað um
innan trans hreyfingarinnar, til að skilgreina sig (eða ekki) sjálf, felur ekki
í sér ofbeldi, en á sama tíma virðist samfélagið upplifa það sem einhvers
konar ógn.
TMM_4_2018.indd 58 6.11.2018 10:22