Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Page 86
B r y n j ó l f u r Þ o r s t e i n s s o n
86 TMM 2018 · 4
skapi. Þvert á móti, mér finnst þeir afbrigðilegir, eins og þeir hafi verið
teiknaðir af hugsjúkum manni, eins og skapari þeirra hafi ekki verið
með öllum mjalla. Mín vegna mættu þeir allir drepast, úr hungri eða
heimsku eða hverju sem er. Mér hefur alltaf fundist þetta innst inni, en
miðvikudagspósturinn gerði útslagið.
*
PÁLÍNA: Hann breyttist. Því er ekki hægt að neita. Það var eins og að
orð prestsins – er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga Pálínu
sem hjá þér stendur? – hefðu lagt einhver álög á hann, þráðurinn í honum
styttist allavega svona rosalega. Hann gjörbreyttist. Og stuttu eftir að
ég áttaði mig á því að hann væri alls ekki með nef, heldur gogg, tók ég
eftir fjöðrunum. Hann var alsettur þeim, svörtum og gljáandi, hvernig
það fór fram hjá mér líka er erfitt að útskýra. Sérstaklega svona eftir á.
Svo má ekki gleyma klónum. Þær voru beittar sem hnífar, það fékk ég
að finna á eigin skinni.
*
HALLDÓRA: Gráturinn kom ekki úr íbúðarhúsinu, ekki að ofan eða
neðan, heldur barst hann að utan, og skar mig alveg inn að beini. Það er
ekki að ástæðulausu sem ég er barnlaus. Það er val, sama hvað fólk kann
að segja um það. Allavega, ég var búin að skyggnast lengi út í myrkrið, lá
á glugganum til að átta mig á því hvað væri eiginlega á seyði, þegar ég sá
hann loksins. Fuglinn. Hann sat í einni öspinni í garðinum, risavaxinn
og svartur, stærsti fugl sem ég hef nokkurn tímann séð. Augun í honum
glitruðu eins og smaragðar í myrkrinu, og ég fann að þau beindust að
mér. Fuglinn starði á mig og orgaði eins og hvítvoðungur.
*
VÍÓLA: Inn um lúguna kom stórt umslag. Utan á því var nafn mitt
skrifað með titrandi hendi. Ég opnaði það, í umslaginu voru þrjár svartar
fjaðrir. Stórar, ég hafði aldrei séð svona stórar fjaðrir, og þær glönsuðu
svo fallega. Ég vissi auðvitað ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Hver sendir
fjaðrir án útskýringa? Átti þetta að vera rómantískt eða hvað var á seyði?
Ég prófaði að setja fjaðrirnar í glas til skrauts á eldhúsborðinu en það leit
hálf afkáralega út. Þá prófaði ég að dýfa oddinum á þeim í blek. Hugsaði
að það væri eina rétta leiðin til að skrifa eitthvað fallegt um himininn. Út
TMM_4_2018.indd 86 6.11.2018 10:22