Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Page 87
I l l f y g l i
TMM 2018 · 4 87
úr fjöðrunum kom hins vegar ekkert nema versta svartagallsraus, þannig
að á endanum henti ég þeim bara í ruslið.
*
PÁLÍNA: Ekki nóg með það. Stundum, þegar hann var að … ljúka sér af
kallaði hann nafn einhverrar annarrar. Nöfnin voru mörg og misjöfn:
Stefanía, Agnieszka, Víóla … og það þýddi ekkert fyrir mig að minnast
á þetta. Þá varð hann allur hinn versti og … já. Nei, ég lét þetta bara yfir
mig ganga. Tiplaði á tánum. Reyndi að hverfa inn í veggina.
*
HALLDÓRA: Ég fór auðvitað út og ætlaði að fæla helvítið burt en þá var
hann horfinn. Og um leið og ég lagðist á dýnuna aftur byrjaði hann að
gráta á ný. Nágrannarnir breyttu bara um umræðuefni þegar ég minntist
á þetta, eins og það væri skammarlegt að vera með einhverja fuglapest
í garðinum, þannig að ég gerði það sem ég held að flestir myndu gera á
endanum: Fékk mér byssuleyfi. Það tók sinn tíma og kostaði sitt, en á
andvökunóttunum, þegar ég gat ekki sofið fyrir grátinum, huggaði ég
mig þó við tilhugsunina um smaragðsfuglinn að hvellbreytast í ský úr
fiðri og blóði.
*
VÍÓLA: Þannig var þetta alla miðvikudaga. Inn um lúguna kom umslag
með þremur svörtum fjöðrum. Ég henti þeim jafnóðum og reyndi að
hugsa sem minnst um þetta. En það þýddi ekkert, fjaðrirnar eitruðu
huga minn hægt og bítandi. Ég tók svo eftir því í vinnunni einn daginn
að samstarfsfélagar mínir voru fiðraðir. Ég get ekki útskýrt þetta, það
var eins og hulu væri svipt frá augum mínum, en þeir voru allir þaktir
svörtum, gljáandi fjöðrum. Ég sagði upp á stundinni. Gekk bara út og
sneri aldrei aftur.
*
PÁLÍNA: Svo gerðist það. Við fengum okkur hamborgara á American
Style þarna í Skipholtinu og hann var eitthvað illa fyrirkallaður. Ég
reyndi að hressa upp á stemninguna, spjallaði og svona, en það gekk
ekkert, og þegar við vorum búin að borða og á leiðinni út í bíl greip hann
TMM_4_2018.indd 87 6.11.2018 10:22