Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Side 53
JóHannES GÍSLI JónSSOn
52
(1a) f + l + u + g + a (fluga)
(1b) f + u + l + a + g (fulag)
(1c) a + f + l + u + g (aflug)
Í táknmálum eru allar grunnbreyturnar tjáðar á sama tíma. Þannig kemur
handformið hvorki á undan né á eftir hreyfingunni í tákninu fluga því það
helst í gegnum alla hreyfinguna frá líkama táknarans og út í táknrýmið. Því
er oft sagt að táknmál einkennist af sammyndum (e. simultaneous formation)
en raddmál af raðmyndun (e. sequential formation). Sammyndun í táknmálum
byggist einnig á því að táknmál hafa mörg „talfæri“ (e. articulators), það er
tvær hendur, líkama, andlit og höfuð. Til dæmis er hægt að mynda tákn með
höndunum á sama tíma og merkingarbær látbrigði eru tjáð í andliti. Þannig
eru já/nei-spurningar myndaðar í ÍTM og fleiri táknmálum með því að lyfta
augabrúnum á meðan setningin er táknuð.19 Miðlunarháttur táknmála gerir
því sammyndun mögulega í þessu tilviki.20
Raðmyndun gegnir þó líka mikilvægu hlutverki í táknmálum, meðal ann-
ars í myndun samsettra orða. Þannig er samsetta orðið húsfélag (https://
is.signwiki.org/index.php/Húsfélag) myndað með því að raða saman hús og
félag og setning eins og til dæmis gamall maður lesa bók ‘gamli maðurinn
las bókina’ byggist á fjórum orðum sem koma í tiltekinni röð. Þar að auki
skiptist setningin í nafnliðinn gamall maður sem kemur á undan sagn-
liðnum lesa bók. Sammyndun er heldur ekki óþekkt í raddmálum og það
má til dæmis sjá í hljóðvörpum í íslensku, sbr. taka – tók þar sem þátíð fram-
söguháttar í seinni beygingarmyndinni er táknuð með sérhljóðinu /ó/ sem
er hluti af rót orðsins og kemur því hvorki á undan né á eftir rótinni.
Í sumum táknum, til dæmis tákninu fluga sem fjallað var um hér að ofan,
er aðeins notuð ein hönd og það er yfirleitt hægri höndin hjá rétthentum
táknurum en vinstri höndin hjá örvhentum. Þessi tákn nefnast stakhandar-
tákn (e. one-handed signs). Hins vegar eru ýmis tákn mynduð með báðum
höndum, svonefnd tvíhandatákn (e. two-handed signs). Í slíkum táknum geta
báðar hendur verið virkar í þeim skilningi að þær hreyfast báðar, sbr. bók í
ÍTM (sjá mynd 4). Hitt er líka mögulegt að einungis önnur höndin sé virk.
19 Elísa Guðrún Brynjólfsdóttur o.fl., „Málfræði íslenska táknmálsins“, bls. 36.
20 á það hefur líka verið bent að sjón gagnist almennt betur en heyrn til að nema
sammyndun í máli en heyrnin henti betur fyrir raðmyndun; sjá til dæmis Richard
Meier, „Why Different, Why the Same? Explaining Effects and non-Effects of
Modality upon Linguistic Structure in Sign and Speech“, Modality in Language and
Linguistic Theory, ritstjórar Richard Meier, Kearsy Cormier og David Quinto-Po-
zos, Cambridge: Cambridge University Press, 2002, bls. 1–25.