Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 59
JóHannES GÍSLI JónSSOn
58
Hér að neðan verður rætt um hljóðkerfisfræði, orðhlutafræði og setn-
ingafræði táknmála með samanburði við raddmál. Í öllum þessum hlutum
málkerfisins er niðurstaðan hin sama, það er að samsvaranir milli táknmála
og raddmála séu mjög skýrar og bendi eindregið til þess að málkerfi tákn-
mála sé í grundvallaratriðum eins og málkerfi raddmála.
Hljóðkerfisfræði
Eins og áður hefur komið fram hafa bæði raddmál og táknmál merkingar-
lausar einingar sem hægt er að setja saman þannig að úr verði stærri einingar
sem bera merkingu. af þessum sökum er alvanalegt að tala um hljóðkerfis-
fræði þegar rætt er um kerfi merkingarlausra eininga í táknmálum ekkert
síður en raddmálum. Samt sem áður er málfræðilegur munur táknmála
og raddmála mestur í hljóðkerfisfræðinni enda tengist hún miðlunarhætti
tungumála meira en önnur svið málfræðinnar.
Merkingarlausar einingar eru breytilegar milli mála, bæði í táknmálum
og raddmálum. Til dæmis er íslenska með ýmis órödduð nefhljóð sem eru
ekki til í flestum tungumálum heims en vantar raddaða blísturshljóðið [z]
sem kemur til dæmis fyrir í ensku, sbr. orð eins og zoo. Það sama á við um
handform í táknmálum. Þannig eru tiltekin handform notuð í sumum tákn-
málum en ekki öðrum. Í taívanska táknmálinu (TSL) er t.d. notað handform
þar sem baugfingur stendur einn út en þetta handform er ekki til í ástralska
táknmálinu (auslan)36 og reyndar heldur ekki í ÍTM.
Munur á grunnbreytum er ekki alltaf merkingarlega aðgreinandi í tákn-
málum rétt eins og ólík hljóð eru ekki alltaf aðgreinandi í raddmálum. Hér
má taka sem dæmi táknið takk í ÍTM sem hægt er að mynda bæði með
B-handformi og Bb-handformi (sjá myndir 5 og 6).37 Þessi tvö handform
eru nákvæmlega eins nema að seinna handformið er bogið. Ekki er vitað
um nein tvö tákn í ÍTM sem eru eins að því undanskildu að annað er með
B-handform en hitt með Bb-handform.38 Munurinn á þessum handformum
er því ekki merkingargreinandi í ÍTM. Þessi tvö handform eru því allófónar
Theory, ritstjórar Richard Meier, Kearsy Cormier og David Quinto-Pozos, Cam-
bridge: Cambridge University Press, 2002, bls. 241–262, hér bls. 241–244.
36 Trevor Johnston og adam Schembri, Australian Sign Language (Auslan). An Intro-
duction to Sign Language Linguistics, Cambridge: Cambridge University Press, 2007,
bls. 12.
37 Sjá Elísu Guðrúnu Brynjólfsdóttur o.fl., „Málfræði íslenska táknmálsins“, bls. 19.
38 Þessar upplýsingar hef ég frá Rannveigu Sverrisdóttur. Hér er þó frekari rannsókna
þörf.