Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Qupperneq 65
JóHannES GÍSLI JónSSOn
64
Beygingar í táknmálum og raddmálum eru mjög sambærilegar hvað varð-
ar beygingarþætti. Til dæmis skiptist tíðarhorf í táknmálum í marga flokka
eftir merkingu (endurtekningarhorf, vanahorf, lokið horf og svo framvegis)
en allir þessir flokkar koma fyrir í raddmálum.57 Þá eru skýrar samsvaranir
í því hvaða beygingarþættir eru helst táknaðir með sérstöku morfemi. Til
dæmis er ekki vitað um neitt tungumál, hvorki táknmál né raddmál, sem hef-
ur sérstakt eintölumorfem í nafnorðum en ekkert fleirtölumorfem.58 Hins
vegar er auðvelt að finna tungumál þar sem fleirtalan er táknuð sérstaklega í
beygingunni en ekki eintalan. Gott dæmi um þetta er enska þar sem regluleg
fleirtala nafnorða er táknuð með beygingarendingum (sbr. cat-[s], pig-[z],
church-es) en ekki er til nein ending fyrir eintölu.
Ýmsar hliðstæður eru milli táknmála og raddmála í fleirtölumyndun
nafnorða.59 Til dæmis er endurtekning tákns útbreidd aðferð við að tjá fleir-
tölu í táknmálum og hún er líka til í sumum raddmálum. Þá er algengt, bæði
í táknmálum og raddmálum, að fleirtalan sé ekki sérstaklega aðgreind frá
eintölunni. Þannig er þetta til dæmis í ýmsum sterkum hvorugkynsorðum
í íslensku (sbr. svín, borð, hús). athugið að báðar þessar aðferðir geta komið
fyrir í sama tungumálinu. Þannig er fleirtalan af stóll í þýska táknmálinu
(DGS) mynduð með endurtekningu táknsins en hins vegar er ekki til sérstök
fleirtala af tákninu bíll í DGS.60
Setningafræði
Líkindi milli táknmála og raddmála eru mun skýrari í setningafræði en í
hljóðkerfisfræði og orðhlutafræði enda snýst setningafræði um stærri ein-
ingar þar sem raðmyndun ræður ríkjum og miðlunarháttur hefur takmörkuð
áhrif. Smæsta eining setningafræðinnar er orðið en orð raða sér saman í
setningaliði og þeir geta myndað stærri setningaliði og auk þess líka heilar
setningar.
Þótt rannsóknir á setningafræði táknmála séu alls ekki jafnlangt komnar
og rannsóknir á setningafræði raddmála er óhætt að fullyrða að táknmál hafi
57 Sama rit, bls. 268.
58 Sjá Greville G. Corbett, Number, Cambridge: Cambridge University Press, 2000.
Samkvæmt þessu eru til tungumál sem hafa bæði eintölu- og fleirtölumorfem í nafn-
orðum en það eru þó væntanlega eingöngu raddmál.
59 Roland Pfau og Markus Steinbach, „Pluralization in Sign and in Speech. a Cross-
modal Typological Study“, Linguistic Typology 10, 2006, bls. 135–182.
60 Sama rit. Um fleirtölumyndun nafnorða í ÍTM, sjá Sigurð Jóel Vigfússon, „Fleir-
tala í íslensku táknmáli“, Ba-ritgerð, Háskóla Íslands, 2020, http://hdl.handle.
net/1946/34841.