Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Blaðsíða 67
JóHannES GÍSLI JónSSOn
66
Táknmál hafa setningaliði alveg eins og raddmál og hægt er að færa sams
konar rök fyrir þeim og í raddmálum.63 Þar að auki eru til rök fyrir setninga-
liðum sem eiga aðeins við um táknmál. Til dæmis hefur verið sýnt fram á
að neitunarlátbrigði í táknmálum geta ekki náð yfir orðastreng sem myndar
ekki heilan sagnlið, til dæmis aðalsögn og lýsingarorð sem er hluti af and-
laginu, sbr. eftirfarandi dæmi úr DGS:64
_________________hh
(6a) maður blóm rauður kaupa
____________hh
(6b) *maður blóm rauður kaupa
Dæmi (6a) mætti þýða ‘Maðurinn keypti rauð blóm’ og þar ná neitunarlát-
brigðin (hh = hrist höfuð) yfir allan sagnliðinn eins og línan yfir orðunum
sýnir, þ.e. andlagið (blóm rauður) og sögnina (kaupa). Hins vegar ná lát-
brigðin ekki yfir heilan setningalið í (6b) því strengurinn rauður kaupa
myndar ekki setningalið, aðeins hluta af sagnliðnum. Setningin er því ótæk.
Það er líka vel þekkt að reglur setningafræðinnar byggjast á formgerð
setninga en ekki orðatalningu og það á jafnt við um raddmál og táknmál.
Til dæmis er ekki til nein setningafræðileg regla sem kveður á um að orð af
tilteknum orðflokki eigi að vera þriðja orðið í setningum. Vissulega mætti
halda því fram að slík regla þjóni ekki neinum tilgangi og sé því útilokuð í
tungumálum heims en skýringar af þessu tagi virðast þó ekki gildar í setn-
ingafræði. Þetta má til dæmis sjá af reglunni um persónubeygða sögn í öðru
sæti (e. Verb Second, V2) sem er fullkomlega tilgangslaus eftir því sem best
verður séð. athugið líka að þessi regla byggist á formgerð en ekki orða-
talningu enda verður það sem kemur á undan sögninni að vera heill setn-
ingaliður og hann getur innihaldið mörg orð (sbr. Allt fólkið í næsta húsi hef
ég hitt oftar en einu sinni).
Öll tungumál heims hafa einhvers konar takmarkanir á orðaröð; það er
því ekki til neitt tungumál sem hefur algjörlega frjálsa orðaröð. Orðaröð
63 Um setningaliði í ÍTM má fræðast hjá Elísu Guðrúnu Brynjólfsdóttur, „Hvað gerðir
þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Um myndun hv-spurninga í ís-
lenska táknmálinu“, Ma-ritgerð í almennum málvísindum, Háskóli Íslands, 2012,
bls. 6–10, http://hdl.handle.net/1946/12835.
64 Roland Pfau, „applying Morphosyntactic and Phonological Readjustment Rules in
natural Language negation“, Modality and Structure in Signed and Spoken Languages,
ritstjórar Richard P. Meier, Kearsy Cormier og David Quinto-Pozos, Cambridge:
Cambridge University Press, 2002, bls. 263–295, hér bls. 287.