Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 75
JóHannES GÍSLI JónSSOn
74
táknmál og raddmál lúta ýmiss konar hömlum, þar á meðal hömlum sem
tengjast samspili ólíkra sviða málkerfisins. En þar sem fram kemur reglu-
bundinn munur í málkerfi táknmála og raddmála er það oft vegna ólíks
miðlunarháttar eins og sjá má í samræmisbeygingu sagna og fornöfnum.
Vegna gerólíks miðlunarháttar er skiljanlegt að fræðimenn fyrri tíma
skyldu hafa talið að táknmál væru ekki fullkomin tungumál eins og raddmál
og miklu einfaldari að byggingu. En til að sýna fram á líkindi táknmála og
raddmála þarf rannsóknir og fræðilega greiningu en það var ekki fyrr en
á seinni hluta síðustu aldar sem farið var að rannsaka táknmál út frá hug-
tökum og hugmyndum nútímamálvísinda. Rannsóknasaga táknmála er því
góð áminning um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar og vísindalegra vinnu-
bragða.87
Ú T D R á T T U R
Þótt táknmálum sé miðlað á gerólíkan hátt en raddmálum, það er með handahreyf-
ingum og ýmiss konar látbrigðum, er hægt að sýna fram á að táknmál hafi málfræði-
lega formgerð sem er í grundvallaratriðum eins og í raddmálum. Það eru þó ekki
nema rétt rúm 60 ár síðan það var fyrst gert en fram að þeim tíma höfðu alls kyns
ranghugmyndir verið uppi meðal fræðimanna um eðli táknmála enda voru þá engar
rannsóknir til að styðjast við. Hinn sameiginlegi grunnur táknmála og raddmála
verður aðeins leiddur í ljós með rannsóknum og fræðilegri greiningu sem tekur mið
af ýmsum óhlutstæðum eiginleikum tungumála sem eru óháðar miðlunarhætti.
Í þessari grein verður fjallað um fjölmörg atriði sem táknmál og raddmál eiga
sameiginleg og tengjast málkerfinu sjálfu, þar á meðal kerfi merkingarlausra eininga
(hljóðkerfinu), en einnig málnotkun og máltöku. Einnig verður sýnt fram á að tákn-
mál og raddmál lúta ýmiss konar hömlum, til dæmis þeim sem tengjast samspili
ólíkra sviða málkerfisins. En þar sem fram kemur reglubundinn munur í málkerfi
táknmála og raddmála er það oft afleiðing af ólíkum miðlunarhætti.
Lykilorð: hljóðkerfisfræði, málnotkun, máltaka, miðlunarháttur, orðhlutafræði, radd-
mál, setningafræði, táknmál
87 Ég vil þakka Rannveigu Sverrisdóttur og Valgerði Stefánsdóttur fyrir vandaðan
yfirlestur og umræður um efni greinarinnar og nafnlausum ritrýnum fyrir gagnlegar
ábendingar.