Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Blaðsíða 81
RAnnVEIG SVERRISDóTTIR OG KRISTÍn LEnA ÞORVALDSDóTTIR
80
málinu. Þriðji þátturinn er málstýring,16 það er viðleitni málhafa eða ann-
arra sem tilheyra málsamfélagi sem hafa, eða trúa því að þeir hafi, áhrifavald
til þess að ákvarða málnotkun annarra. Til dæmis með því að hvetja til eða
krefjast notkunar annarra afbrigða. Spolsky telur að þegar tungumál hlýtur
lögbundna stöðu sem opinbert mál þjóðar sé um málstýringu að ræða. Það
hvort tungumál njóti lögbundinnar stöðu innan málsamfélagsins er hins
vegar háð málstefnu samfélagsins og hvort málsamfélagið fari að lögum.
Helsti fræðimaður okkar Íslendinga á sviði málstefnu, Ari Páll Kristins-
son, hefur skilgreint málstefnu sem „ráðandi málfélagslega vitund og dulin
og sýnileg ferli í tilteknu málsamfélagi“17 og varðar hún bæði stöðu og form.
Sú skilgreining segir hann að byggi á því að litið sé á málstefnu sem óað-
skiljanlegan hluta málmenningar18 samfélagsins og er ætlað að ná fram þeirri
hugsun sem fram kemur hjá Spolsky að málstefna taki til málhegðunar,
málafstöðu og málstýringarákvarðana.19 Þá geti málstefna í þrengri merk-
ingu einnig vísað til útgefinna áætlana eða yfirlýsinga eins og einhvers konar
aðgerðaáætlun á vissu sviði.20 Ari Páll segir að málstefna tiltekins málsam-
félags miði að sameiginlegum markmiðum sem séu samfélagsleg og nefnir
dæmi um það hver meginmarkmiðin geti verið. Þar eru til dæmis þættir eins
og varðveisla menningarverðmæta, að minnka áhrif fyrri herraþjóðar og að
koma til móts við þarfir minnihlutahópa svo eitthvað sé nefnt. Málstefna sé
viðfangsefni sem fleiri en málfræðingar hafi áhuga á sökum þess hve mikið
hún getur sagt um samfélagið á hverjum tíma. Einnig segir hann málstefnu
vera þjóðfélagslegt afl og mjög margir hafi leitast við að hafa áhrif á málum-
hverfi og málnotkun fólks, sem og á viðhorf fólks til máls og málnotkunar.21
Málstefna tekur til flestra sviða tungumálsins og málnotkunar, allt frá
formi þess, eins og hvernig eigi að beygja orð eða jafnvel skrifa, til stöðu þess
16 Spolsky segir málstýringu venjulega kallaða language planning en hann vill kalla hana
language management.
17 Ari Páll Kristinsson, „Um málstefnu“, Hrafnaþing 3/2006, bls. 47–63, hér bls. 47.
18 Schiffmann segir að málstefnur byggi á þeirri málmenningu (e. linguistic culture) sem
þær tilheyra/verða til í. Með málmenningu á hann við þau gildi, ætlanir, viðhorf o.fl.
sem tengd eru við ákveðið mál, einnig hvernig hugsað er um tungumál og hverjar
trúarsögulegar aðstæður eru í umhverfi málsins. Vegna þessa sé mjög mikilvægt að
skoða úr hvers konar málmenningu málstefnur koma. Harold F. Schiffmann, Lingu-
istic Culture and Language Policy, London: Routledge, 1996, bls. 5.
19 Ari Páll Kristinsson, „Málræktarfræði“, bls. 103.
20 Ari Páll Kristinsson, Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun, Reykjavík: Há-
skólaútgáfan, 2017, bls. 88.
21 Ari Páll Kristinsson, „Málræktarfræði“, bls. 99–100.