Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 96
UM MÁLSTEFnU ÍSLEnSKS TÁKnMÁLS
95
myndafræði, þeim hugmyndum sem móta skilning fólks á málum og til-
brigðum mála. Málhugmyndafræði endurspeglar þau viðhorf sem hegðun
fólks og orðræða ræðst af og getur hún haft áhrif á málbreytingar, hvort mál
deyja út og hvernig fólk er flokkað eftir málinu sem það notar.96 Með því að
beina sjónum að mikilvægi jákvæðra viðhorfa til ÍTM er því verið að leggja
grunn fyrir aðra þætti málstefnunnar því ef hugmyndir fólks og viðhorf til
ÍTM og málhafa þess eru neikvæð97 er á litlu að byggja og tómt mál að tala
um málumhverfi, umdæmi, rannsóknir eða annað. Viðhorfastýring hefur
það markmið að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika
tungumála.98 Áhersla er einnig lögð á sýnileika málsins, aukinn sýnileiki
eykur notkun á málinu og fjölgar þar með umdæmum en hann hefur einn-
ig áhrif á sjálfsmynd þeirra sem tala málið og þar með viðhorf til málsins.99
Í MÍTM er áhersla lögð á að viðhorf til ÍTM sem tungumáls verði til
jafns við íslensku. Þar með er verið að benda á mikilvægi þess að málin tvö
njóti jafnræðis og enn frekar að málhafar þeirra standi jafnfætis að öllu leyti,
ekki bara gagnvart lögum heldur einnig að virðingu. Einnig er vísað til þess
að þar sem ÍTM er minnihlutamál þurfi að gera málinu enn hærra undir
höfði, svo það geti með sanni staðið íslenskunni til jafns.100 Jákvæð viðhorf
geta skipt sköpum fyrir aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum
um ÍTM sem og skilningi á mikilvægi málsins frá upphafi máltökuskeiðs. Í
MÍTM er ítrekað að bæði viðhorf almennings og stjórnvalda, ríkis og sveit-
arfélaga, skipti máli. Þessir aðilar verða að sýna það í verki að þeir séu til-
búnir til að rækta með sér jákvætt viðhorf til ÍTM og mismunandi birtingar-
mynda þess sem og beita sér gegn neikvæðum viðhorfum í garð ÍTM.101
Alls átta aðgerðir í aðgerðaáætlun málstefnunnar snúa beint að viðhorfum
og er þeim ætlað að stuðla að því að markmið stefnunnar um jákvæð viðhorf
náist. Áhersla er lögð á það að opinberir aðilar og stofnanir gangi á undan
með góðu fordæmi og sýni í verki að ÍTM sé jafnt íslensku. Ríki og sveitar-
félög eiga að tryggja að opinberir viðburðir, stefnur, ávörp og upplýsinga- og
96 Judit T. Irvin og Susan Gal, „Language Ideology and Linguistic Differentiation“;
Verena Krausnecker, „Ideologies and Attitudes toward Sign Languages. An App-
roximation“, Sign Language Studies 4/2005, bls. 411-431.
97 Um neikvæð viðhorf til ÍTM sjá Rannveigu Sverrisdóttur, „„Hann var bæði mál- og
heyrnarlaus.“ Um viðhorf til táknmála“, Ritið 1/2007, bls. 83–105.
98 Sjá Timothy Reagan, Language Policy and Planning for Sign Languages, bls. 54.
99 Julia Sallabank, „Diversity and language policy for endangered languages“, bls. 117.
100 Bls. 3–4.
101 Bls. 3–4.