Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 184
HÁSKÓLI Í ÞÁGu LýðRæðIS
183
virkja til þess samborgara sína og stjórnmálin, ræða og leggja á ráðin með
öðrum um samfélagsleg málefni og ákvarðanir sem varða okkur öll.68 Vil-
hjálmur Árnason hefur orðað þetta svo: „borgari þarf að hafa vilja og hæfni
til að mæta samborgurum sínum í rökræðu um sameiginleg hagsmunamál.
Þjálfun slíkrar rökræðu ætti að vera inntakið í því að búa nemendur undir líf
í lýðræðissamfélagi og efla með þeim borgaralega vitund og ábyrgð.“69 Þetta
gerist ekki af sjálfu sér. nemendur í grunnnámi eru flestir á því aldursskeiði
sem ræður miklu um það hvers konar lýðræðisborgarar þeir verða og því
hafa háskólar hér mikil tækifæri til jákvæðra áhrifa.
Lýðræðismenning er hugtak sem gjarnan er notað í umræðu um forsend-
ur lýðræðis. Færð hafa verið rök fyrir því að hugvísindi í háskólum geti gegnt
lykilhlutverki í að skapa menningu þar sem almenningur veitir stjórnvöldum
gagnrýnið aðhald70 og höfundar áhrifamikilla kenninga fyrri tíma um hlut-
verk háskóla í nútímasamfélagi lögðu áherslu á þátt háskóla í að skapa menn-
ingu sem styður við slíkt samfélag.71 Lýðræðismenning er lykilhugtak í stóru
verkefni, Hæfniþættir lýðræðismenningar (e. Competences for democratic culture),
sem Evrópuráðið heldur úti og miðar að því að skilgreina þá hæfni sem
er undirstaða lýðræðismenningar í samfélagi fjölbreytileika. Að baki verk-
efninu liggur sú hugmynd að til að lýðræðislegar stofnanir og lög geti virkað
sem skyldi þurfi rætur þeirra að liggja í lýðræðislegum gildum, viðhorfum,
venjum og hæfni sem saman mynda lýðræðislega menningu.72 Líkanið hefur
verið rækilega útfært fyrir öll skólastig, þar á meðal háskólastigið. Lögð er
áhersla á að á háskólastigi sé lýðræðismenning ræktuð með því að ýta undir
68 Ronald J. Daniels, What Universities Owe Democracy, bls. 93.
69 Vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði, Reykjavík:
Heimskringla, 2008, bls. 405.
70 Leszek Koczanowicz og Rafał Włodarczyk, „Education for Critical Community and
the Pedagogy of Asylum“, Studies in Philosophy and Education 41/2022, bls. 191–209.
Sjá einnig Vilhjálm Árnason, „Árvekni eða auðsveipni“ og Pál Skúlason, „Heim-
spekideild, háskólinn og þjóðfélagið“.
71 Jose Ortega y Gasset, Mission of the University; Wilhelm von Humboldt, „On the
Spirit and the Organizational Framework of Intellectual Institutions in Berlin“. Páll
Skúlason lýsir hugmynd Humboldts meðal annars þannig: „Háskólamenntuninni er
ætlað að gera okkur hæfari til að skynja og skilja lífið í heild sinni, hugsa skýrari og
dýpri hugsanir, verða að þroskaðri manneskjum sem leggja sitt af mörkum til að gera
mannlífið fegurra og betra.“ Háskólapælingar, bls. 92.
72 Council of Europe, Competences for Democratic Culture. Living Together as Equals in
Culturally Diverse Democratic Societies, Stasbourg: Council of Europe, 2016; Ólafur
Páll Jónsson, „Lýðræðisleg hæfni fyrir lýðræðislega menningu“, Tímarit um uppeldi
og menntun 28: 2/2019, bls. 181–200, hér bls. 182.