Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Side 191
SIGuRðuR KRISTInSSOn
190
og jafningjastjórnun við skipulag námsbrauta. Akademískt frelsi undirstrikar
þannig jafna stöðu háskólakennara sem akademískra borgara, með því frelsi
og þeirri ábyrgð sem í því felst, og veitir þeim svigrúm til tjáningar og rök-
ræðu um ólík viðhorf og skoðanir um fræðileg efni eftir því sem viðfangsefni
hverrar fræðigreinar gefa tilefni til.99 Auk skuldbindingar sinnar við akadem-
ískt frelsi hafa háskólar leitast við að skapa vettvang fyrir opinskáa umræðu
um hvers kyns ágreiningsefni, svo sem með því að veita stúdentafélögum
frelsi til að efna til málfunda og bjóða þar til þátttöku hverjum sem þau fýsir
án þess að eiga á hættu að háskólayfirvöld grípi inn í til að forðast hörð við-
brögð við umdeildum skoðunum.100 Háskólar sem virða akademískt frelsi og
almennt mál- og skoðanafrelsi eru þannig táknmyndir lýðræðis í tvennum
skilningi: Annars vegar vísa þeir með tryggð sinni við akademískt frelsi til
lýðræðislegs gildis heiðarlegra rökræðna og skuldbindingar við sannleikann;
hins vegar vísa þeir með umburðarlyndi sínu til þess grunngildis lýðræðis
sem felst í almennu mál- og skoðanafrelsi.
Háskólar geta því verið táknmyndir fyrir lýðræðislega jafningjastjórnun
annars vegar og málfrelsi og rökræðulýðræði hins vegar; í þessum táknum
felst hluti þess lýðræðislega gildis sem háskólar hafa. En þegar háskólar eru
traustur vettvangur fyrir jafningjastjórnun, akademískt frelsi og rökræður
um þjóðfélagsmál hefur það meira en bara táknrænt gildi því að þessir þættir
hafa líka afleiðingar sem eru verðmætar fyrir lýðræðið. Þau sem taka þátt
í háskólasamfélagi af þessu tagi geta með því öðlast aukna lýðræðislega
borgaravitund og hæfni til að mæta samborgurum með ólík lífsviðhorf, til
að hlusta hvert á annað og ræða samfélagsmál af umburðarlyndi en jafn-
framt virðingu fyrir rökum og staðreyndum. Þau sem standa utan háskóla-
samfélagsins hverju sinni geta sömuleiðis fengið innblástur og hvatningu frá
þeim táknmyndum lýðræðis sem lesa má út úr lýðræðisvænu háskólastarfi.
Sterkar táknmyndir geta þannig haft margvíslegar jákvæðar afleiðingar fyrir
lýðræðismenningu og þannig haft tvöfalt lýðræðislegt gildi, bæði táknrænt
gildi og notagildi.
99 Guðmundur Heiðar Frímannsson, Anna Ólafsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Sigurður
Kristinsson og Valgerður Bjarnadóttir, „Akademískt frelsi, ábyrgð og hömlur: Sjón-
armið háskólakennara á Íslandi“, Stjórnmál og Stjórnsýsla 18: 1/2022, bls. 139-164,
hér bls. 143-144.
100 Ronald J. Daniels, What Universities Owe Democracy, bls. 230–231.