Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 192
HÁSKÓLI Í ÞÁGu LýðRæðIS
191
Lýðræðislegt framlagsgildi háskóla
Auk notagildis og táknræns gildis hafa háskólar verulegt framlagsgildi fyrir
lýðræðið. Framlagsgildi hlutar eða fyrirbæris felst í því að vera hluti af verð-
mætri heild, svo sem þegar vængur flugvélar þiggur gildi sitt frá framlagi
sínu til þess að vélin geti flogið, eða þegar kórsöngur einstaklings þiggur
gildi sitt frá framlagi sínu til þess að kórinn í heild myndi fallegan hljóm.
Líta má á lýðræði sem kerfi stofnana, sem hver og ein hefur hlutverki að
gegna svo að lýðræðisfyrirkomulagið gangi upp. Stofnanir löggjafavalds,
framkvæmdavalds og dómsvalds eru hér augljós dæmi, ásamt frjálsum fjöl-
miðlum. Menntakerfið er nauðsynlegur hluti þessa fyrirkomulags stofnana í
lýðræðisþjóðfélagi. Án almennrar menntunar væru forsendur brostnar bæði
fyrir lögmæti lýðræðislegs valds og stöðugleika lýðræðislegs stjórnskipulags,
enda hefur almenningsfræðslu og almennri skólaskyldu víðast verið komið
á í tengslum við lýðræðisþróun.101 Þó að háskólar hafi lengi vel verið elít-
ustofnanir er ljóst að þegar á 19. öld hélst þróun nútímaháskólans í hendur
við hugmyndir um tengsl hans við lýðræðið og má í því sambandi rifja upp
orð William Rainy Harpers, fyrsta rektors Chicago háskóla, um að háskólar
ættu bæði upphaf sitt og eðli í „anda lýðræðisins“.102 Eftir fjöldavæðingu
háskólastigsins á seinni hluta 20. aldar varð hlutverk háskóla í gangverki
lýðræðisins enn brýnna.103
Ein leið til að greina lýðræðislegt framlagsgildi háskóla er sú að ímynda
sér samfélagið án háskóla og spyrja hvaða þætti myndi þá vanta til að hægt
yrði að tala um gott og traust lýðræðislegt þjóðfélag. Augljósasta og elsta
dæmið um framlagsgildi háskóla til lýðræðisins er hlutur þeirra í menntun
embættismanna ríkisins, en án slíkrar menntunar væri starf dómstóla og
stjórnsýslu í verulegri hættu, svo dæmi sé tekið. Af öðrum starfsstéttum sem
gegna lykilhlutverki í gangverki lýðræðisins er sérstök ástæða til að nefna
kennara því að eins og áður er getið krefst lýðræðið almennrar menntunar
og háskólar eiga nú á tímum stærstan þátt í að veita kennaraefnum náms-
101 Sjá til dæmis Ólaf Pál Jónsson, „Lýðræðisleg menntastefna. Sögulegt ágrip og heim-
spekileg greining“, Stjórnmál & stjórnsýsla 10: 1/2014, bls. 97–116 og Johann n.
neem, Democracy‘s Schools. The Rise of Public Education in America, Baltimore: Johns
Hopkins university Press, 2017.
102 William Rainey Harper, The Trend in Higher Education, Chicago: university of Chi-
cago Press, 1905, bls. 3.
103 Rachel F. Moran, „City on a Hill. Democratic Promise of Higher Education“;
Sigríður Matthíasdóttir, „Grunnmenntunarskólinn 1961-1990“, Gunnar Karlsson
ritstj., Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011, Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 283–
531.