Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 194
HÁSKÓLI Í ÞÁGu LýðRæðIS
193
fræðistörf í háskólum sem alþjóðlega iðju. Eins og nýleg dæmi sanna bæði
í ungverjalandi og Tyrklandi er alþjóðasamstarf háskóla þyrnir í augum
stjórnvalda í ríkjum þar sem lýðræði á í vök að verjast.108 Alþjóðasamskipti
háskólafólks gera alræðisöflum erfiðara fyrir að sölsa til sín völd með að-
ferðum lýðhyggju og þjóðernishyggju. Samkvæmt hugmynd Jaspers geta
alþjóðleg samskiptanet háskólafólks veitt ákveðna vörn gegn alræðisöflum
innan hvers lýðræðisríkis og háskólar þannig haft gildi vegna framlags síns
til þessara alþjóðlegu varna fyrir lýðræði í heiminum.
Gera má greinarmun á tvenns konar framlagsgildi hlutar eða fyrirbæris
eftir því hvort það er nauðsynlegt til að verðmætin sem um ræðir verði að
veruleika. Til að flugvél geti flogið þarf hún tvo vængi og því hefur hvor
vængur fyrir sig nauðsynlegt framlagsgildi. Dæmi um ónauðsynlegt fram-
lagsgildi er hins vegar framlag hvers söngvara í stórum kór til þess að kórinn
myndi hljóm. Ef einn söngvari forfallast í 50 manna kór mun hann hljóma
samt sem áður, þótt hljómurinn yrði enn fyllri ef kórinn væri fullskipaður.
Framlag hvers og eins er verðmætt þó það sé ekki nauðsynlegt. Annað dæmi
um ónauðsynlegt framlagsgildi er framlag borðfótar til þess að borðið hald-
ist stöðugt. Þótt fótinn vantaði væri hægt að halda borðinu stöðugu með því
til dæmis að hlaða stafla af bókum undir borðshornið. Framlag fótarins til
stöðugleika borðsins er verðmætt en ekki nauðsynlegt því að hægt væri að
nota eitthvað annað í sama tilgangi.
Spyrja má hvort framlagsgildi háskóla til lýðræðis sé nauðsynlegt eða
ónauðsynlegt, með hliðsjón af sögu og einkennum þessara stofnana. Lýð-
ræði hefur verið til í einhverri mynd án háskóla, svo sem í Aþenu til forna, og
vissulega er mögulegt að nota lýðræðislega ferla til að komast að niðurstöðu
í sameiginlegum málum í mannlegu samfélagi án þess að háskólar komi þar
beint við sögu. En án framlags háskóla er hætt við að lýðræði yrði valt í
sessi sem stjórnskipulag heils ríkis til lengri tíma litið, enda hafa alræðisríki
löngum leitast við að takmarka þá þætti háskólastarfs sem mesta þýðingu
hafa fyrir lýðræðið. Sú viðleitni sannar ekki að slíkt háskólastarf sé nauð-
synlegt lýðræðinu en bendir til þess að það ýti undir lýðræði og grafi undan
alræði. Enn fremur bendir hún til þess að með háskólastarfi af þessu tagi
skapist lýðræðisvörn sem erfitt er að sjá fyrir sér að yrði til með öðru móti
en einmitt með því að starfrækja háskóla.
108 Ronald J. Daniels, What Universities Owe Democracy, bls. 1–4; Ayla Jean Yackley,
„Turkish university Protests Continue over Erdogan-appointed Rector“, Politico,
15. janúar 2021, sótt 20. apríl 2022 af https://www.politico.eu/article/turkey-uni-
versity-rector-melih-bulu-protests-recep-tayyip-erdogan/.