Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags - 01.01.1898, Page 202
202
Rifl 24. ágúst og ekki komið fram síðan. En sú var
orsök til þess, er hér greinir:
Oddur átti farmskip mikið er »Svanur« hét, og
var það hið stærsta skip, er menn vissu til hér á
landi um þær mundir. Hafði hann 24. ágúst lagt á
því út úr Rifsósi og heimleiðis. Skipið var hlaðið
miöli og járni, færum og borðvið og annari útlendri
vöru. Var uppgangsveður á landsunnan og náðu
þeir ekki suðurlandinu, en um nóttina gjörði stór-
viðri á norðan. Þeir sigldu svo norður af sem næst
vindi þeir gátu. Stórsjórinn var svo mikill, að
skipið varði sig naumast, og þótti þeim mesta mildi
að skipið skyldi af bera. Lögmaður sat sjálfur undir
stýri um nóttina. Hleyptu þeir síðan vestur fyrir og
upp i stórgljúfur nálægt Látrabjargi. Þar brotnaði
skipið í spón. Sá maður var með þeim á skipinu
er Jón hét frá Brandsbúð á Stapa. Hann komst
upp á bjargið og fékk svo bjargað hinum öllum, en
mjög voru þeir þrekaðir. Var þar siðan kallaður
»Lögmannsvogur« er þeir náðu landi.1
Þegar ekki spurðist til Odds á Drangaþingi,
héldu flestir að skip og menn mundu týnzt hafa.
En ekki leið á löngu áður lífsmark sást með Oddi,
1) Lbs. 124, fol. og 508, 4to. Oddur á í ferð þessari að
hafa komið við í Gvendareyjum og hitt Þormóð skáld. Hann var
eins og kunnugt er talinn fjölkunnugur, og var þá hníginn á efra
aldur. Þegar Þormóður sá lögmann, varð honum staka þessi á
munni:
Góði herra, gefið til mér (o: fyrirgefið)
þó gamans hreyfi eg orðum.
Oddur hinn hái eruð þér
eftir Krukkspá forðum.
Oddur var hærri flestum mönnum. Er sagt að lögmaður hafi rétt
karli snoppung fyrir vísuna, en hann þá aftur kveðið: