Andvari - 01.01.1975, Side 35
ANDVARI aðdragandi og upphaf vesturferða af íslandi á nítjándu öld
33
sonar - í Almanaki Ólafs Thorgeirssonar í Winnipeg árið 1900, ásamt stað-
festingu Þ. Þ. Þorsteinssonar á hinu sarna í Sögu íslendinga í Vesturheimi, sem
stendur sem trygging fyrir sannleiksgildi þess arna.
Fyrir atbeina eða milligöngu Guðmundar faktors gerist tvennt, sem verður
til þess að hrinda af stað þeirri atburðarás, sem öðru fremur setur svip sinn á
gang mála næstu árin. Fyrst er það, að fáir en vel valdir ungir Sunnlendingar,
allvel fjáðir og vel að sér, ráðast í þau stórræði að kveðja kóng og prest og sigla
af landi burt árið 1870. Lá leið þeirra frá Eyrarbakka um Reykjavík, Kaup-
mannahöfn, Liverpool og Quebec í Kanada, en þaðan með lest til Milwaukee í
Wisconsinríki í Bandaríkjunum. Næstu árin endurtekur svipuð saga sig, fáeinir
menn fara árlega, stakir eða í litlum flokkum, og eru flestir þeirra af Suðurlandi.
Það er svo 1872 sem straumhvarfa verður vart, að minnsta kosti frá okkur séð,
sem nú lifum.
Um árið 1872 er þess fyrst að geta varðandi vesturferðir, að þá fóru af
Norðurlandi tveir menn, hvor í sínu lagi, sem innan skamms áttu eftir að leggja
sitt af mörkum til þess að tengja örlög íslenzkra vesturfara við Kanada frekar en
Bandaríkin. En sá er einn hlutur merkilegur í fari þeirra Islendingar, sem fluttust
vestur um haf, að af engu landi öðru í Evrópu en íslandi fóru fleiri til Kanada
en til Bandaríkjanna.
Þessir fyrstu Kanadafarar af Islandi voru Jóhannes Arngrímsson, prestssonur
frá Bægisá, en hann fór upphaflega með tveimur félögum sínum um Noreg til
Wisconsin, þangað sem allir íslenzkir vesturfarar virðast hafa leitað fyrst þessi
árin; og Sigtryggur Jónasson amtmannsskrifari frá Möðruvöllum, barnungur
maður, sem einn síns liðs hélt að yfirveguðu ráði rakleitt til Kanada, af því
að hann kaus heldur að fósturlandi konungsríki en lýðveldi, þegar hann mátti
velja.
Annað sem vert er að nefna um vesturferðir af íslandi 1872 er, að þá
slógust í hóp þeirra sem fóru á snærum Guðmundar Thorgrimsens faktors
fyrstu Norðlendingarnir. Reyndist það vera tímanna tákn: Skriðan var loks
tekin að þokast þangað, sem fólksflutningarnir áttu eftir að verða ákafastir næstu
áratugina, meðan flóttinn var mestur af íslandi.
Það er eiginlega upphaf fjöldaflutninga af Islandi vestur um haf, að
fáeinir ötulir áhugamenn taka að boða til funda og beita sér fyrir samtökum
snemma árs 1873. Voru forgöngumenn þessir búsettir í Þingeyjarsýslu og við
Eyjafjörð, og má ugglaust slá því föstu, að þeir hafi annars vegar sótt áhrif í
bréf og rit félagsskapar Brasilíufara, en hins vegar í prentuð gögn um Norður-
Ameríkuferðir, einkum norsk og dönsk. Þá má fullyrða, að við hafi bætzt hvers
3