Andvari - 01.01.1975, Qupperneq 136
134
HERMANN PÁLSSON
ANDVABI
síðan til verksins og vó Véstein, eftir því sem áður er sagt.“ í þessari gerð
sögunnar er því ekkert vafamál, hver morðinginn var, og sama máli gegnir
um Eyrbyggju, sem einnig kveður skýrt að orði: „Þorgrímur drap Véstein
Vésteinsson að haustboði í Haukadal." Nú má vel vera, að höfundur styttri
gerðar Gísla sögu hafi vitað það fullvel, að Þorgrímur myrti Véstein, en ef
svo hefur verið, þá er þögnin um þetta merkilegt atriði, þar sem hún gerbreytir
eðli frásagnarinnar. En hvernig sem því er háttað, getur ritskýrandinn ekki
komizt hjá að gera ráð fyrir því, að þetta leyndarmál sé hluti af heildarverkinu,
og því er ástæðulaust að reyna að sanna, hver morðinginn var; styttri gerðin
þegir yfir þessu atriði, svo að lesandinn geti ekki verið viss í sinni sök. Með
því að benda eklci á ákveðinn mann sem morðingja er höfundurinn reyndar að
styrkja myrkravöldin í sögunni.
Þótt glöggir ritskýrendur muni yfirleitt sætta sig við þetta leyndarmál og
fara með gátuna í sögunni eins og beinast liggur við, hafa menn ekki getað
stillt sig um að færa rök að því, hver morðið framdi. Allt fram á sjötta tug
aldarinnar munu menn hafa verið á einu máli um, að Þorgrímur væri morðinginn,
en árið 1951 birtist merkileg ritgerð um s:guna eftir Anne Holtsmark, sem
hé'lt því fram, að það væri Þorkell,1 og síðan hefur danski ritskýrandinn Thomas
Bredsdorff hallazt á sveif með henni.2 Árið 1969 kom út stórglögg ritgerð um
söguna eftir Theodore M. Andersson, sem rekur til hlítar öll þau rök, sem þá
höfðu komið fram í málinu, og er hann heldur á þeirri skoðun, að Þorgrímur sé
morðinginn.3 Nýjasta framlagið til þessarar þrætu, sem ég hef séð, er grein
eftir Claiborne W. Thompson, og bendir hann þar á nýtt atriði til stuðnings
þeirri skoðun, að Þorgrímur sé morðinginn. 4 Hér mun ég ekki leitast við að
rekja í öllum atriðum málafærslu þessara mætu fræðimanna, heldur mun ég
einungis reyna að finna stað þeirri tilgátu minni, að höfundurinn hafi vísvitandi
talað myrkt um morðið, svo að grunur félli á þrjá menn: Þorgrím goða, Þorkel
mág hans og Þorgrím nef. Allir eru menn þessir riðnir við morðið, þótt einungis
mágarnir hafi verið ákærðir af nútímafræðimönnum.
1. Anne Holtsmark, „Studies in the Gísla saga,“ Studia Norwegica Ethnologica et Folklorhtica
ii 6 (1951), 3. - 55. ibls.
2. Thomas Bredsdorff, ,,Sanddr0mmeren. Gisli Surss0ns saga.“ Indfaldsvinkler. 16 fortolkninger
af nordisk digtning tilegnet Oluf Friis. (Rbh. 1964), 7.-21. bls.
3. Theodore M. Andersson, „Some Ambiguities in Gtsla Saga: A Balance Sheet.“ BONIS 1968
(útg. 1969), 7,- 42. bls.
4. Claibome W. Thompson, „Gísla saga: The Identity of Vestein’s Slayer," Arkiv för nordisk
filologi, 88. bindi (1973), 85.-90. bls.